Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Niðurstöður könnunar á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 12. apríl 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í gær kom út skýrsla með niðurstöðum könnunar á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna.

Könnunin var framkvæmd í lok síðasta árs og náði til ríflega 16 þúsund ríkisstarfsmanna á 144 stofnunum. Tæplega 10 þúsund starfsmenn tóku þátt og liggja svör þeirra að baki niðurstöðunum. Könnuninni er ætlað að auðvelda stofnunum að fá mat á eigin stöðu stjórnunar og starfsaðstæðum, en niðurstöðurnar nýtast ekki síður til framtíðaruppbyggingar á sviði stjórnunar og starfsmannamála fyrir ríkið í heild. Sambærileg könnun var gerð árið 1998.

Margar áhugaverðar staðreyndir koma í ljós. Konum í stjórnendastöðum hefur fjölgað frá árinu 1998. Tæpur helmingur stjórnenda, annarra en forstöðumanna, er konur. Undir lok árs 2006 voru 23,0% forstöðumanna konur en hlutfallið var 15,6% árið 1998.

Hlutfall kvenna 1998 og 2006

Þegar litið er til stjórnunartengdra þátta þá eru vísbendingar um að fleiri starfsmenn en áður telji vinnubrögð stofnunar sinnar til fyrirmyndar og að upplýsingamiðlun innan stofnunar sé í góðu lagi. Afstaða starfsmanna til tiltekinna stjórnunarhátta næsta yfirmanns hefur einnig tekið jákvæðum breytingum en hlutfall þeirra sem telja að næsti yfirmaður leiðbeini og gagnrýni á uppbyggjandi hátt og takist vel að leysa þau starfsmannavandamál sem upp koma hefur hækkað frá árinu 1998.

Menntunarstig ríkisstarfsmanna er jafnframt hátt og telja langflestir þeirra að þekking og hæfileikar nýtist vel í starfi. Það er mikil sókn í sí- og endurmenntun þar sem eingöngu 19% þátttakenda höfðu ekki sótt sér slíka menntun. Flestir sem sækja sí- og endurmenntun telja að færni hafi aukist.

Könnunin sýnir þó að ýmislegt má betur fara í starfsmannamálum ríkisins. Vinnuálag, streita og einelti virðist vera áberandi en er þó breytilegt milli stofnana og stofnanahópa. Einnig er hlutfall þeirra sem eru ánægðir með laun sín lágt og eru heldur færri konur en karlar ánægðar.

Í heild kemur fram mikill breytileiki milli einstakra stofnana á afstöðu starfsmanna til stjórnunar og starfsumhverfis. Það er því hópur stofnana sem mælist hár en á hinn bóginn mælast aðrar stofnanir lágar. Hér virðast aðferðir mannauðsstjórnunar meðal annars hafa jákvæð áhrif á viðhorf starfsmanna. Sem dæmi má nefna að þeir starfsmenn sem telja starfsmannastefnu stofnunar framfylgt hafa almennt jákvæðari afstöðu til stjórnunar stofnunar og eru einnig ánægðari í starfi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta