Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2007 Innviðaráðuneytið

Siglingar við Suður- og Suðvesturland verði afmarkaðar

Lagðar hafa verið fram tillögur um að komið verði á leiðastjórnun við siglingar skilgreindra skipa á ákveðnum siglingaleiðum við suður- og suðvesturströnd landsins. Samgönguráðherra hefur falið Siglingastofnun Íslands að kynna tillögurnar hið fyrsta fyrir Alþjóða siglingamálastofnuninni.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra skipaði í nóvember 2006 nefnd til að gera tillögur um hvernig megi stuðla að því að fyrirbyggja slys og mengun á sjó og draga úr áhrifum þeirra á umhverfi sjávar og stranda, efnahagslífið og heilbrigði íbúanna. Í febrúar 2007 var nefndinni falið að leggja fram tillögur um afmörkun öruggra siglingaleiða og/eða takmörkun siglinga við strendur landsins. Var nefndinni falið að huga í fyrsta áfanga að svæðinu við suðvesturhluta landsins. Jafnframt var henni falið að hlutast til um að fá alþjóðlega viðurkenningu á siglingaleiðum sem verði afmarkaðar á vettvangi Alþjóða siglingamálastofnunarinnar, IMO.

Nefndin hefur skilað samgönguráðherra áfangaskýrslu og nær hún til leiðastjórnunar við suður- og suðvesturhluta landsins en í næsta áfanga mun hún vinna að tillögum varðandi aðrar siglingaleiðir við landið og hefur óskað eftir fresti til 1. október til að leggja þær fram.

Með tillögunum í áfangaskýrslu nefndarinnar er stefnt að því að draga úr hættu vegna mengunar hafs og stranda af völdum skipaumferðar. Er það gert með því að leggja til takmörkun á för stórra skipa og skipa sem flytja hættulegan farm og mengandi varning um mikilvægar uppeldisstöðvar fiska og annarra sjávarlífvera úti fyrir Suðvesturlandi þar sem helstu nytjastofnar Íslendinga klekjast út og eru veiddir. Ástæðan er einnig að mörg strandsvæði á þessum slóðum eru mikilvæg fyrir viðgang fuglalífs. Markmiðið með leiðastjórnun er einnig að beina skipum frá siglingahættum á viðkomandi svæðum og á þær siglingaleiðir sem teljast öruggastar.

Tillögurnar hafa í heild sinni þann tilgang að efla öryggi skipaumferðar á því svæði sem þær ná til með því að draga úr líkum á óhöppum og alvarlegum afleiðingum slysa sem kunna að verða fyrir umhverfi og lífríki. Tillögurnar miða að því að sem minnst truflun verði á siglingum skipa sem þær ná til og sú mikilvæga starfsemi sem felst í millilandasiglingum verði starfrækt með fyllsta öryggi og í sátt við umhverfi og samfélag.

Áfangaskýrsla nefndarinnar er rúmlega 100 blaðsíður og þar er að finna ítarlega umfjöllun um tillögurnar sjálfar og gildissvið þeirra, skilgreiningar, markmið og lagastoð. Þá er fjallað um líklega þróun skipaumferðar í efnahagslögsögu Íslands næstu árin, áhrif olíumengunar á byggð og lífríki og sérstök og viðkvæm land- og hafsvæði við suður- og suðvesturhluta landsins með tilliti til skipaumferðar og mengunarhættu af völdum siglinga.

Í nefndinni sitja Hermann Guðjónsson siglingastjóri sem er formaður hennar, Auðunn F. Kristinsson, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni samkvæmt tilnefningu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, Garðar Jóhannsson, fulltrúi útgerðarinnar, Kristján Geirsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun samkvæmt tilnefningu umhverfisráðuneytisins, og Kristján Sveinsson, sagnfræðingur hjá Siglingastofnun sem ritari nefndarinnar.

Að fengnum þessum tillögum nefndarinnar hefur samgönguráðherra óskað eftir því að Siglingastofnun Íslands hlutist til um að fá alþjóðlega viðurkenningu á siglingaleiðunum sem afmarkaðar eru í ofangreindum tillögum. Ráðgert er að kynna tillögurnar á fundi undirnefndar IMO síðar í mánuðinum í því skyni að þær geti hlotið fullnaðarafgreiðslu í haust.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta