Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2007 Innviðaráðuneytið

Um starfsumhverfi atvinnubílstjóra

Í framhaldi af umfjöllun á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins um starfsumhverfi atvinnubílstjóra vill samgönguráðuneytið árétta nokkur atriði sem þar koma fram. Bent skal á í upphafi að reglur um aksturs- og hvíldartíma atvinnubílstjóra hafa ekki verið hertar heldur hefur eftirlit aukist og viðurlög verið hert eins og gert hefur verið varðandi ýmis önnur brot á umferðarlögum og á við um alla bílstjóra en ekki aðeins atvinnubílstjóra.

  1. Rétt er að á liðnu sumri voru settar tvær nýjar reglugerðir um aksturs- og hvíldartíma ökumanna og um ökurita og notkun hans. Reglugerð um aksturs- og hvíldartíma er í raun endurnýjun reglugerðar sem sett var árið 1995 þegar hér voru innleidd ákvæði um hvíldartíma atvinnubílstjóra í samræmi við saminginn um Evrópska efnahagssvæðið. Íslensk stjórnvöld hafa jafnan nýtt sér öll möguleg undanþáguákvæði frá þessum reglugerðum.
  1. Í framhaldi af breytingu á umferðarlögum á síðastliðnu ári var sett ný reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum þar sem viðurlög eru hert við brotum á ákvæðum um aksturs- og hvíldartíma. Einnig var sett ný reglugerð um ökuferilsskrá og punktakerfi. Þessar reglugerðir voru ekki bornar undir hagsmunaaðila þar sem telja verður óeðlilegt að þeir hafi umsagnarrétt um möguleg viðurlög vegna brota á reglum er varða starfsumhverfi þeirra. Ákvæði reglugerðanna eru hins vegar byggð á tillögum frá ríkissaksóknara eins og tilskilið er þegar settar eru reglur um sektir og viðurlög og reglugerðir um ökuferilsskráningu og punktakerfi.
  1. Rangt er því að þrengt hafi verið að starfsumhverfi atvinnuökumanna eins og gefið er í skyn á vef SA þar sem reglurnar eru að stofni til frá árinu 1995. Hins vegar hefur eftirlit verið aukið og viðurlögin hert á grundvelli styrkari lagastoðar og það er eina breytingin. Vekja má einnig athygli á að með lagabreytingum og setningu reglugerða hafa viðurlög við öðrum umferðarlagabrotum einnig verið hert. Með auknu eftirliti og aðhaldi er því spjótum ekki eingöngu beint að atvinnubílstjórum.
  1. Fram kemur í umfjöllun SA að bílstjórum geti reynst erfitt að framfylgja téðum reglum um aksturs- og hvíldartíma. Bent skal á að reglur um hvíldartíma eru settar til að stuðla að auknu öryggi, að bílstjórar fái eðlileg hlé yfir vinnudaginn og eðlilegan hvíldartíma milli vinnudaga. Á löngum leiðum er ljóst að 9 tíma daglegur aksturstími bílstjóra (má vera 10 tímar tvo daga í viku) dugar ef til vill ekki til að ná í áfangastað. Eðlilegt er að sömu reglur gildi hérlendis um aksturs- og hvíldartíma enda sýnt að þær eru í þágu aukins umferðaröryggis og gilda ekki síður við erfiðar aðstæður hérlendis en við akstur á hraðbrautum erlendis. Er það því ábyrgðarhluti af SA að ætlast til þess að gefinn sé afsláttur af slíkum reglum og hlýtur að standa atvinnurekendum nær að skipuleggja akstur þannig að hann rúmist innan reglnanna.
  1. Að mati samgönguráðuneytis er það röng stefna ef bílstjórar leggja meiri áherslu á að aka hraðar en æskilegt er og sleppa því að setja snjókeðjur undir bíl, eins og vísað er til í umfjöllun á vefsíðu SA, í því skyni að ná áfangastað innan tímamarka reglugerðar. Ekki er hægt að skella skuldinni á reglur um vinnutíma heldur er ábyrgðin hjá bílstjórum og vinnuveitendum.
  1. Tilgreint er hjá SA að brot bílstjóra vegna 14 mínútna umframaksturs geti leitt til allt að 25 þúsund króna sektar og hálftíma umframakstur sektar allt að 50 þúsund krónur. Bent skal á að sekt bílstjóra í umræddum tilvikum yrði 10 þúsund eða 20 þúsund krónur en eigandi bíls yrði einnig sektaður og þá um 15 eða 30 þúsund krónur.
  1. Í lokin má benda á að fjölgað verður á næstunni áningarstöðum og athafnasvæðum á aðalleiðum þar sem flutningabílar geta haft viðdvöl vegna hvíldar bílstjóra. Með því er leitast við að tryggja eins og kostur er að bílstjórar geti staðnæmst þegar þeim hentar og tekið tilskilin hlé.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta