Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2007 Matvælaráðuneytið

Lokaáfangi hvalveiða í vísindaskyni

Lokaáfangi hvalveiða í vísindaskyni

Í dag hefst lokaáfangi sýnatöku vegna viðamikilla hrefnurannsókna Hafrannsóknastofnunarinnar sem hófust í ágúst 2003. Rannsóknaáætlun var lögð fyrir ársfund vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins árið 2003 í samræmi við reglur ráðsins og fékk þar ítarlega umfjöllun. Samkvæmt upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir veiðum á 200 hrefnum vegna rannsóknanna og skyldi sýnatökunni dreift í samræmi við útbreiðslu tegundarinnar á landgrunni Íslands. Þar var gert ráð fyrir að sýnatökunni lyki á tveim árum, en síðar var ákveðið að fara hægar í sakirnar. Alls hefur nú veiðst 161 hrefna og mun sýnatökunni ljúka í ár með veiðum á 39 dýrum. Fyrir utan lengd söfnunartímabils hefur upphaflegri áætlun verið fylgt hvað varðar dreifingu sýnatökunnar.

Umræddar veiðar eru í samræmi við stofnsamning Alþjóðahvalveiðráðsins og með þeim er vilji Alþingis framkvæmdur, sbr. ályktun Alþingis frá 10. mars 1999.

Samkvæmt 8. gr. stofnsamnings Alþjóðahvalveiðiráðsins fylgir réttinum til að stunda hvalveiðar í vísindaskyni sú skuldbinding að nýta afurðir hvalanna sem eru veiddir. Afurðir þeirra hrefna sem verða veiddar í ár verða nýttar eftir því sem hægt er þótt veiðarnar séu í vísindalegum tilgangi, eins og raunin er almennt með þær afurðir sem falla til við rannsóknastarfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar.

Eldri rannsóknir benda til að stærð hrefnustofnsins geti haft veruleg áhrif á afrakstursgetu nytjafiska, þ.m.t. þorsks og loðnu, en mikil óvissa er um þessi áhrif einkum vegna skorts á gögnum um fæðusamsetningu hrefnu hér við land. Megin markmið þessara rannsókna Hafrannsóknastofnunarinnar er að kanna betur hlutverk hrefnu í vistkerfi hafsins í kringum Ísland. Ljóst er að nytjafiskar eru hluti af fæðu hrefnu, en samspil fiska og hrefnu í vistkerfinu er lítt þekkt. Frumniðurstöður úr fyrri hluta yfirstandandi rannsókna benda til að hlutdeild þorsks í fæðu hrefnu sé jafnvel enn meiri en áður var talið.

 

Í ljósi mikilvægis sjávarútvegs fyrir Ísland er nauðsynlegt að hafa góðar vísindalegar upplýsingar um áhrif hrefnu á afrakstur nytjastofna og að geta sett hrefnu með fullnægjandi hætti inn í fjölstofnalíkön.

 

Rannsóknirnar hafa jafnframt önnur markmið, sem m.a. tengjast líffræði, atferli og erfðafræði hrefnu. Auk Hafrannsóknastofnunarinnar hafa komið að þeim sérfræðingar frá Háskóla Íslands, Rannsóknastofnun Fiskiðnaðarins (nú Matís), Tilraunastöð HÍ í Meinafræði  að Keldum, Landspítala Háskólasjúkrahúsi og Iðntæknistofnun auk erlendra vísindastofnana.

Nánari upplýsingar um rannsóknirnar er að finna á heimasíðu Hafrannsóknastofnunarinnar www.hafro.is.

 

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta