Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2007 Dómsmálaráðuneytið

Samstarfssamningur Landhelgisgæslu Íslands og bandarísku strandgæslunnar undirritaður í ágúst

Ákveðið hefur verið að gera samstarfssamning milli bandarísku strandgæslunnar og Landhelgisgæslu Íslands um leit og björgun, samvinnu um reglubundna upplýsingamiðlun um vöktun skipaferða, þjálfun, æfingar og starfsmannaskipti. Stefnt er að því að dóms- og kirkjumálaráðherra og Thad W. Allen, yfirmaður bandarísku strandgæslunnar, undirriti samstarfssamninginn hér á landi í ágúst nk. Samningurinn er í samræmi við samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um samstarf í varnar- og öryggismálum frá því í september 2006 þar sem meðal annars er gert ráð fyrir auknu samstarfi Landhelgisgæslu Íslands og bandarísku strandgæslunnar.

Ákvörðun um gerð samstarfssamningsins var tekin á fundum embættismanna og fulltrúa landhelgisgæslunnar og strandgæslunnar í Washington og Boston dagana 12. og 13. apríl sl. þar sem stofnað var til mikilvægra beinna tengsla milli dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og landhelgisgæslunnar annars vegar og strandgæslunnar hins vegar.

Þá hefur aðild Íslands að samkomulagi Bandaríkjanna, Stóra-Bretlands og Kanada um leit og björgun í Norður-Atlantshafi verið samþykkt. Unnið er að tæknilegum frágangi málsins hjá þeim ríkjum er standa að samkomulaginu og er stefnt að því að dóms- og kirkjumálaráðherra undirriti samkomulagið fyrir Íslands hönd.

Á fundunum var rætt um samstarf Landhelgisgæslu Íslands og bandarísku strandgæslunnar í Samstarfsráði strandgæslna við Norður-Atlantshaf (Northern Atlantic Coast Guard Forum) en undirbúningsfundur vegna stofnunar þessa nýja samstarfsráðs verður í Svíþjóð 20. ágúst nk.

Framtíðarskipan í samstarfi strandgæslna á Norður-Atlantshafi tekur meðal annars mið af því sem fram kom á alþjóðlegri ráðstefnu sérfræðinga um siglingar, öryggismál og olíu- og gasflutninga á Norður-Atlantshafi, sem haldin var að frumkvæði Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra 2. nóvember sl. í Reykjavík.

Af hálfu Íslands tóku Þórunn J. Hafstein, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, og Ásgrímur L. Ásgrímsson, yfirmaður Vaktstöðvar siglinga, þátt í viðræðunum.

Reykjavík 17. apríl 2007 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta