Hertar aðgerðir gegn ólöglegum veiðum sjóræningjaskipa
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra fagnar nýjum og hertum reglum um aukið eftirlit í höfnum aðildarríkja Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) sem hafa það að meginmarkmiði að hindra að ólöglegar afurðir komist á markað.
Hertar reglur um eftirlit með frosnum fiskafurðum í höfnum í Norður Atlantshafi ganga í gildi 1. maí næstkomandi. Reglurnar voru samþykktar af NEAFC í nóvember sl., með það að meginmarkmiði að hindra að ólöglegar afurðir komist á markað.
Ísland, Evrópusambandið, Færeyjar, Grænland, Noregur og Rússland eru nú í lokaundirbúningi vegna framkvæmdar þessara nýju reglna sem vonir standa til að muni þrengja enn frekar að svokölluðum sjóræningjaveiðum, sem hafa m.a. verið vandamál í karfaveiðum á Reykjaneshrygg.
Þegar er í gildi bann við því að aðildarríki NEAFC heimili skipum sem hafa stundað eða stutt við ólöglegar veiðar að koma til hafnar. Nýju reglunum er ætlað að hindra að ólöglegum afla sé komið á markað í gegnum flutningaskip sem ekki eru á lista yfir slík skip og að hindra að skip sem sigla undir fána aðildarríkis geti veitt umfram veiðiheimildir sínar með því að landa afla í höfn annars ríkis en fánaríkisins. Samkvæmt nýju reglunum þarf formlega staðfestingu fánaríkis á því að viðkomandi skip hafi haft heimild til veiða þann afla sem til stendur að landa. Höfnum NEAFC ríkjanna er því lokað fyrir afurðum sem ekki koma úr löglegum veiðum.
„Það er mikilvægt skref í baráttunni gegn ólöglegum veiðum að þessar reglur séu að koma til framkvæmdar. Undanfarin misseri hefur mikil vinna verið unnin til að hindra ólöglegar veiðar og það er gott til þess að vita að þessar reglur ganga í gildi núna þegar karfavertíðin fer að hefjast á Reykjaneshrygg. Það skiptir Ísland miklu máli að alþjóðleg samvinna skili sér í raunverulegum aðgerðum eins og þessum. Hafnaeftirlitsreglurnar verða viðbót við það sem við höfum gert hingað til og saman skila þessar aðgerðir því vonandi að okkur takist í framtíðinni enn betur upp í baráttunni gegn ólöglegum veiðum,“ segir Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra.
NEAFC vinnur nú að því að kynna hafnaeftirlitsreglurnar og er hægt að sjá fréttatilkynning NEAFC um málið hér.
Sjávarútvegsráðuneytinu 18. apríl 2007