Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tillögur um vernd og endurheimt birkiskóga

Birkitré við Heklu
Við Heklu

Umhverfisráðherra skipaði nefndina í júní á síðasta ári og henni var falið að móta tillögur um eftirfarandi þætti:

-        Að kortleggja ógnir sem steðja að íslenskum birkiskógum.
-         Að móta tillögur um hvernig megi efla vernd og endurheimt birkiskóga á Íslandi.
-         Að gera tillögur að leiðbeiningum vegna athafna sem hafa áhrif á birkiskóga.

Í nefndina voru skipaðir fulltrúar frá umhverfisráðuneytinu, landbúnaðarráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Skógræktarfélagi Íslands. Danfríður Skarphéðinsdóttir, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu, var formaður nefndarinnar.

Meðal þess sem nefndin leggur til er að beitarstýring verði aukin, unnið verði að friðun birkiskóga og að sett verði opinbert markmið um að birkiskógar þeki í framtíðinni 10% af flatarmáli landsins  og að birki verði gróðursett í auknum mæli á skógræktarsvæðum þar sem  lögð hefur verið áhersla á innfluttar tegundir. Þá leggur nefndin til að rannsóknir á íslenskum birkiskógum verði efldar, að fræðsla um gildi birkiskóga verði aukin og að gefnar verði út leiðbeiningar um hvernig forðast má eða draga úr röskun birkiskóga í tengslum við framkvæmdir.

Flatarmál birkiskóga nú á tímum er um 1.200 ferkílómetrar en er talið hafa verið 25.000–30.000 ferkílómetrar við landnám. Útbreiðsla birkiskóga á Íslandi nú er því einungis um 5% af áætluðu flatarmáli þeirra við landnám. Helsta ástæða fyrir eyðingu birkiskóga er talin vera nýting mannsins, þ.e. viðarhögg til kolagerðar og eldiviðar, sviðningur og búfjarbeit. Uppblástur í kjölfar ofnýtingar, óhagstæðar veðurfarsbreytingar og náttúruhamfarir hafa síðan magnað afleiðingarnar.

Um ástand íslenskra birkiskóga segir í skýrslunni að í flestum þeirra séu trén á svipuðum aldri og óvíða eldri en 60–80 ára. Þá segir: ,,Birkiskógarnir eru yfirleitt þéttir og fátt er um feyskin tré. Þetta er til marks um að þeir hafi flestir vaxið upp í kjölfar skógarhöggs á öndverðri 20. öld og/eða eftir að vetrarbeit var hætt. Nú á dögum er birkiskógum einkum eytt eða raskað vegna mannvirkjagerðar og er sú eyðing/röskun mjög takmörkuð samanborið við það sem áður hefur gengið yfir skóga landsins. Því hefur verið minna álag á birkiskóga á Íslandi sl. þrjá áratugi en í margar aldir þar á undan. Stefna stjórnvalda varðandi vernd birkiskóga á sér ekki mjög langa sögu eða einungis um 250 ár samanborið við samfellda nýtingu þeirra í 1100 ár. Þrátt fyrir lagasetningu og stefnu stjórnvalda síðustu 100 ár hefur ekki tekist að stöðva eyðingu birkiskóganna. Þar hafa þjóðfélagshættir ráðið meiru um en opinber stefna og svo er enn”.

Sérstök athygli er vakin á því að á undanförnum árum hafi umsvif og framkvæmdir í birkiskóglendum víða um land farið vaxandi, m.a. vegna vinsælda birkigróinna svæða fyrir frístundabyggðir.

Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta