Framkvæmdanefnd um endurskoðun á örorkumati og eflingu starfsendurhæfingar
Forsætisráðherra hefur ákveðið að skipa framkvæmdanefnd til að fylgja eftir tillögum nefndar um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar. Tillögurnar miða að því að breyta núgildandi örorkumati þannig að það verði sveigjanlegra og taki fremur mið af starfsgetu einstaklingsins en örorku. Einnig er gert ráð fyrir að starfsendurhæfing verði stórefld og skipulag hennar bætt þar sem m.a. verði lögð áhersla á að saman fari læknisfræðileg endurhæfing og starfsendurhæfing eftir því sem við á og að hún hefjist eins fljótt og hægt er. Þessar tillögur hafa verið samþykktar í ríkisstjórn og skal framkvæmdanefndin tryggja að þær komi til framkvæmda svo fljótt sem auðið er.
Bolli Þór Bollason er formaður nefndarinnar, tilnefndur af forsætisráðuneytinu, Davíð Á. Gunnarsson, tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Gylfi Arnbjörnsson, tilnefndur af ASÍ, Hallgrímur Guðmundsson, tilnefndur af fjármálaráðuneytinu, Hannes G. Sigurðsson, tilnefndur af SA, Helga Jónsdóttir, tilnefnd af BSRB, Pétur H. Blöndal, tilnefndur af forsætisráðuneytinu, Ragnar Gunnar Þórhallsson, tilnefndur af Öryrkjabandalaginu, Hrafn Magnússon tilnefndur af Landssamtökum lífeyrissjóða og Þór G. Þórarinsson, tilnefndur af félagsmálaráðuneytinu.
Reykjavík 20. apríl 2007