Stofnun stjórnmálasambands við Salómonseyjar
Fastafulltrúar Íslands og Salómonseyja hjá Sameinuðu þjóðunum, sendiherrarnir Hjálmar W. Hannesson og Collin D. Beck, undirrituðu í New York, föstudaginn 20. apríl, yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands ríkjanna. Salómonseyjar eru staðsettar í Suður-Kyrrahafi, austan við Papúu Nýju Gíneu og telur eyjaklasinn meira en 990 eyjar sem eru samanlagt yfir 28 þúsund ferkílómetrar að stærð. Eyjarnar byggja um 550 þúsund íbúar. Fyrr í þessum mánuði reið yfir mikill jarðskjálfti við Salómonseyjar og flóðbylgja í kjölfarið hans olli þar miklu tjóni þar sem tugir manna létu lífið. Á fundi sendiherranna eftir undirritunina var m.a rætt um möguleika á samstarfi ríkjanna á sviði sjávarútvegs og nýtingu jarðhita.