Íslenskir munir frá Nordiska museet í Stokkhólmi afhentir Þjóðminjasafni Íslands
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun þá tillögu menntamálaráðherra að veita Þjóðminjasafni Íslands 1,5 milljón króna styrk af ráðstöfunarfé sínu til að standa straum af kostnaði safnsins við móttöku á íslenskum munum sem Nordiska museet í Stokkhólmi hyggst afhenda Þjóðminjasafni til varðveislu.
Á seinni hluta 19. aldar eignaðist Nordiska museet í Stokkhólmi undir forystu Arthur Hazelius (1833-1901), talsverðan fjölda merkra muna frá Íslandi. Var það í samræmi við tilurð safnsins og tilgang sem í upphafi var að varpa ljósi á norræna menningu. Samkvæmt þeirri stefnu var safnað til Nordiska museet minjum sem einkennandi þóttu fyrir alþýðumenningu á norðurslóðum.
Þjóðminjavörður hefur á undanförnum árum átt í viðræðum við forstöðumann Nordiska museet í Stokkhólmi um framtíðarvarðveislu íslenskra gripa sem eru eign Nordiska museet. Niðurstaða þeirra umræðna var sú að stjórn safnsins hefur ákveðið að afhenda Þjóðminjasafni Íslands 95% af þeim íslensku gripum sem eru í safninu til varðveislu og umsjár.
Hinn 17. apríl sl. undirrituðu forsvarsmenn Nordiska museet og þjóðminjavörður samkomulag um afhendingu minjanna. Samkomulagið kveður m.a. á um að þeir verði afhentir Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu um aldur og ævi.
Stefnt er að því að gripirnir verði sendir hingað til lands í nóvember 2007.
Samtals eru nærri 800 íslenskir gripir í Nordiska museet og eru flestir þeirra útskornir gripir úr tré, svo sem kistlar, rúmfjalir og trafakefli. Meðal íslenskra gripa í Nordiska museet eru margir gripir sem tengjast íslenska hestinum, söðlar, söðuláklæði og ýmsir gripir úr kopar. Jafnframt er þar mjög mikið af búningum og búningaskarti. Þá má geta þess að þarna eru prentaðar bækur og handrit.
Matthías Þórðarson fyrrum þjóðminjavörður skráði alla gripina í Stokkhólmi árið 1922 og búum við enn að hans samantekt.
Langflestir íslensku gripirnir eru frá 18. og 19. öld. Upphaflega komu þeir frá bæjum víða um land en margir eru af Vesturlandi en séra Helgi Sigurðsson prestur á Melum í Melasveit safnaði mörgum þeirra og seldi til Svíþjóðar. Þess má geta að Þjóðminjasafn Íslands var stofnað árið 1863 en séra Helgi gaf þá Íslandi 15 gripi með ósk um að þeir yrðu ,,fyrsti vísirinn til safns íslenskra fornmenja“ en fram að því höfðu íslenskir gripir einkum verið sendir til varðveislu í dönskum söfnum.
„Munirnir eru mikill fengur fyrir íslenska þjóðminjavörslu og rannsóknir á íslenskum menningararfi enda hafa þeir lítt verið rannsakaðir, ef frá eru taldar athuganir og skráning Matthíasar Þórðarsonar fyrrverandi þjóðminjavarðar. Án efa mun afhending þessara muna leiða til nýrrar þekkingar á íslenskum menningararfi,” segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra.