Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins, 24.apríl 2007

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 5/2007

Í þessari skýrslu er fjallað um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála á árunum 2007-2009 á grundvelli nýrrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins. Nokkrar breytingar frá janúarspá eru útskýrðar. Auk þess eru birtir framreikningar til ársins 2012. Helstu niðurstöður eru þessar:

  • Í þjóðhagsskýrslum fjármálaráðuneytisins undanfarin ár hefur verið spáð að hagkerfið byrji að ná jafnvægi þegar dragi úr stóriðjuframkvæmdum. Í skýrslu ráðuneytisins í apríl í fyrra, þegar óróleiki á fjármálamarkaði stóð sem hæst, var talið ólíklegt að hörð lending hagkerfisins ætti sér stað með tilheyrandi óstöðugleika fjármálakerfisins. Flest bendir til að hagkerfið sé tekið að leita jafnvægis og að þróunin verði áfram stöðug.
  • Hægja tók á í efnahagslífinu árið 2006 eftir vaxtarsprett fyrri ára, m.a. vegna stigvaxandi aðhalds í hagstjórn. Mikil uppbygging í efnahagslífinu, bylgja fjárfestingar íslenskra fyrirtækja erlendis, samdráttur í útflutningi og aukinn innflutningur leiddu til þess að viðskiptahalli landsins nam 26,7% af landsframleiðslu árið 2006. Minni vöxtur þjóðarútgjalda, þ.e. neyslu og fjárfestingar, og hinn mikli viðskiptahalli höfðu áhrif til að hagvöxtur nam 2,6% það ár.
  • Árið 2007 er gert ráð fyrir miklum samdrætti í fjárfestingu við lok núverandi stóriðjuframkvæmda og smávægilegum samdrætti í einkaneyslu. Þrátt fyrir mun meiri samdrátt þjóðarútgjalda en í síðustu niðursveiflu er spáð að hagvöxtur verði tæplega 1% á yfirstandandi ári vegna viðsnúnings í utanríkisviðskiptum. Spáð er að viðskiptahallinn dragist hratt saman í ár og verði 15,8% af landsframleiðslu vegna stórfelldrar aukningar í útflutningi á áli og mikils samdráttar innflutnings.
  • Þjóðarútgjöldum er spáð að dragast áfram saman árið 2008 en að þau aukist á ný árið 2009 með vaxandi einkaneyslu og jafnvægi í fjárfestingu. Vegna áframhaldandi bata í utanríkisviðskiptum er spáð að hagvöxtur verði tæp 3% bæði árin.
  • Atvinnuleysi var að meðaltali 1,3% af vinnuafli árið 2006. Áætlað er að atvinnuleysi aukist í ár og verði 1,8%. Spáð er að atvinnuleysi aukist á næstu misserum og verði að meðaltali 3,2% af vinnuafli árið 2008 og 3,4% árið 2009. Hratt dró úr framleiðsluspennu í hagkerfinu árið 2006. Nú er reiknað með að slaki myndist á yfirstandandi ári en að hann minnki á næstu árum og hagkerfið einnkennist af meira jafnvægi.
  • Lækkun á gengi krónunnar og hækkun launa árið 2006 höfðu áhrif til að auka verðbólgu. Hjöðnun fasteignaverðshækkana hafði mótverkandi áhrif og verðbólga var að meðaltali 6,8% það ár. Áhrif gengis- og launabreytinga síðasta árs eru nú að mestu afstaðin og aðgerðir stjórnvalda til að lækka matvælaverð leiða til þess að verðbólgu er spáð 3,6% að meðaltali árið 2007. Gert er ráð fyrir að verðbólga komist á 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á síðari hluta þessa árs og haldist á því næstu ár.
  • Hækkun tekna og lækkun skatta hafa aukið kaupmátt ráðstöfunartekna mikið á undanförnum árum. Þrátt fyrir aukna skuldsetningu heimila og fyrirtækja undanfarin ár hefur ör eignamyndun og hækkun eignaverðs leitt til þess að hreinar eignir þeirra hafa aukist umtalsvert.
  • Í spá fyrir árin 2010-2012 verður hagkerfið í jafnvægi. Árlegt meðaltal hagvaxtar verður tæp 3%, verðbólga og kaupmáttur ráðstöfunartekna aukast um 2,5% og viðskiptahalli verður kominn í um 5% af landsframleiðslu í lok tímabilsins.
  • Helstu óvissuþættir í þjóðhagsspánni varða frekari stóriðjuframkvæmdir, ástand á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum, gengi krónunnar og endurnýjun kjarasamninga á næsta ári.

Nánari upplýsingar um spána veitir Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins; sími 545 9178 eða 862 0017.

Fjármálaráðuneytinu, 24. apríl 2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum