Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, á Degi umhverfisins 2007

Kæru gestir,

Það er gaman að sjá svo marga saman komna hér í tilefni af Degi umhverfisins. Að þessu sinni er dagurinn tileinkaður hreinni orku og loftslagsmálum.

Loftslagsbreytingar af manna völdum eru eitt mikilvægasta viðfangsefni mannkyns á þessari öld. Með samstilltu hnattrænu átaki má draga verulega úr líkum á hröðum loftslagsbreytingum, sem gætu haft ófyrirsjáanlegar afleiðinar fyrir veðurfar, náttúru og lífsskylirði í mörgum heimshlutum. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér langtímasýn um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 50-70% til ársins 2050. Þetta er meðal metnaðarfyllstu áætlana sem nokkur þjóð hefur sett sér í þessum efnum og þessu markmiði má ná með samdrætti í notkun jarðefnaeldsneytis, aukinni nýtingu endurnýjanlegrar orku og loftslagsvæns eldsneytis og aukinni bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu.

Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til ýmissa ráða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hún hefur hvatt til aukinnar notkunar á vistvænum ökutækjum, meðal annars með því að fella niður vörugjöld af metan-bílum og rafmagnsbílum og veita afslátt af vörugjöldum á tvíorkubílum. Þá hefur verið mælst til þess að ríkisstofnanir kaupi vistvæna bíla þegar þær endurnýja bílakost sinn. Markmiðið er að í lok árs 2012 verði 35% af bílum í eigu ríkisins knúnir vistvænum orkugjöfum. Lög hafa verið sett sem koma í veg fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju fari upp fyrir þau mörk sem kveður á um í Kyoto-sáttmálanum, landgræðslu- og skógræktarverkefni hafa verið efld og fyrir aðeins nokkrum dögum tilkynnti ríkisstjórnin að akstur allra bifreiða stjórnarráðsins verði kolefnisjafnaður og að hið sama verði gert vegna flugferða ríkisstarfsmanna innanlands og erlendis frá og með næstu áramótum.

Við höfum einnig ákveðið að styðja við útflutning á íslensku hugviti á sviði endurnýjanlegrar orku og loftslagsvænni tækni. Hugsanlega geta Íslendingar lagt meira af mörkum í alþjóðlegri baráttu gegn loftslagsbreytingum með slíkum útflutningi en með nokkrum öðrum hætti. Á þessum vettvangi hafa íslensk fyrirtæki starfað víðs vegar um heiminn og stuðla þannig að því að fjöldi fólks sem nú býr við orkuskort eða brennir mengandi eldsneyti geti nýtt jarðhita til upphitunar eða rafmagnsframleiðslu. Þannig taka Íslendingar þátt í því að gera orkunotkun heimsbyggðarinnar umhverfisvænni.

Allt starf stjórnvalda og fyrirtækja byggist þó á því að almenningur vilji taka þátt í átakinu gegn loftslagshlýnun. Öll umhverfismál hefjast heima fyrir, hjá fólkinu og fjölskyldunum. Mér sýnist að svo sé að verða – en málið er brýnt og því megum við ekki slá slöku við þó aðeins miði áfram í þeim efnum. Við verðum að halda áfram að hvetja fólk til dáða og grunnurinn að því er að efla þekkingu almennings á möguleikum á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í daglegu lífi. Og þar komum við að þætti okkar sem erum komin saman hér í dag – flest erum við að vinna að því að efla vitneskju og áhuga almennings á umhverfismálum, þar á meðal loftslagsmálum. Hér eru fulltrúar Landverndar sem hafa í samstarfi við starfsfólk umhverfisráðuneytisins unnið fræðslurit fyrir almenning um hvernig hægt er að lifa vistvænna lífi. Og hér eru forsvarsmenn nýrrar vefsíðu, natturan.is, sem mun þjóna svipuðu hlutverki. Hér eru fulltrúar fyrirtækis sem mun fá viðurkenningu fyrir að vera til fyrirmyndar í umgengni við umhverfið í sínum rekstri. Og síðast en ekki síst eru hingað komnir nemendur úr fimm grunnskólum sem verða heiðraðir hér á eftir fyrir verkefni á sviði umhverfismála.

Kæru félagar, höldum áfram að bera út boðskapinn um mikilvægi umhverfismála – en gleymum samt ekki að staldra öðru hvor við til að meta árangurinn af starfi okkar og fagna því sem hefur áunnist. Dagur umhverfisins er tilvalinn til þess - til hamingju með daginn!



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta