Félagsvinakerfi meðal fjölbreyttra verkefna sem fá styrk úr starfsmenntasjóði
Starfsmenntaráð félagsmálaráðuneytisins hefur úthlutað vegna ársins 2007 rúmlega 48 milljónum króna úr starfsmenntasjóði til 45 verkefna.
„Okkur fannst vel við hæfi að tilnefna að þessu sinni verkefni Rauða kross Íslands „Mentor er málið! – félagsvinakerfi“ sem áhugavert sýnishorn þeirra verkefna sem borist hafa starfsmenntaráði þetta árið“, sagði Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra á blaðamannafundi um styrkveitingarnar í húsakynnum Rauða krossins. „Markmið verkefnisins er að stofna net mentora, stuðningsnet íslenskra kvenna og kvenna af erlendum uppruna, þar sem sambandið byggist á gagnkvæmri virðingu og jafningjagrundvelli. Markmiðið er að styrkja konur af erlendum uppruna sem eru þegar á íslenskum vinnumarkaði, efla þær og rjúfa félagslega einangrun.“
Styrkur til verkefnis Rauða krossins, sem samtökin hafa unnið í samstarfi við fjölmarga aðila, nemur 2,5 milljónum króna.
Áhersla lögð á þrjá flokka
Starfsmenntaráð auglýsti í febrúar síðastliðnum eftir umsóknum um styrki til starfsmenntunar í atvinnulífinu. Auglýst var eftir umsóknum í eftirfarandi þrjá flokka verkefna:
Starfsþróun á vinnustað og nýliðaþjálfun
Störf breytast í samræmi við nýjar hugmyndir og verklag. Lögð var áhersla á starfsþjálfun á vinnustöðum sem auðveldar fólki að tileinka sér nýjungar. Sérstaklega var litið til nýrra leiða fyrir starfsmenn sem hafa litla skólagöngu.
Kennsla í íslensku fyrir útlendinga í vinnustaðatengdu námi
Fólk af erlendum uppruna sem vill læra íslensku á oft erfitt með að finna tíma til að sinna námi utan vinnudags. Lögð var áhersla á verkefni sem gæfu ný tækifæri og hvöttu til vinnustaðatengds íslenskunáms í þeim tilgangi að auka færni einstaklinga á vinnumarkaði.
Kennsla í verslunar- og ferðaþjónustugeiranum
Ferðaþjónusta hefur vaxið hratt og útlit er fyrir að svo verði áfram. Mikil starfsmannavelta hefur einkennt verslun síðastliðin ár. Lögð var áhersla á verkefni sem fólu í sér gæði þjónustu, fagmennsku og öryggi.
Forgangs við úthlutun nutu verkefni sem féllu undir ofangreindar áherslur starfsmenntaráðs. Að venju var ráðið samt reiðubúið að meta umsóknir um mikilvæg verkefni sem féllu utan áherslna ráðsins og var hægt að sækja um styrki í opinn flokk.
Til úthlutunar að þessu sinni voru 55 milljónir króna. Alls sóttu 57 aðilar um styrk samtals að fjárhæð 180.615.234 krónur til 109 verkefna. Fengu 25 aðilar úthlutað styrkjum, samtals að fjárhæð 48.340.000 krónur til 45 verkefna.
Frá árinu 1992 hefur starfsmenntaráð veitt tæplega 800 milljónum króna til um 900 starfsmenntaverkefna sem hafa það að markmiði að efla hæfni starfsfólks og styrkja stöðu atvinnugreina og fyrirtækja hér á landi.
Verkefni sem fengu styrk
Fjölbreytni verkefna sem hlutu styrki í ár er að venju mikil og eru hér upplýsingar um nokkur þeirra auk framangreinds félagsvinakerfis Rauða krossins og samstarfsaðila.
Verkefnið þróun og undirbúningur námsframboðs fyrir öryggisverði fékk styrk að fjárhæð 2.500.000 krónur. Efling – stéttarfélag hefur unnið verkefnið í samvinnu við Securitas ehf., Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Mími – símenntun og Starfsafl. Tilgangur verkefnisins er að bæta námsframboð og þjálfun ófaglærðra starfsmanna hjá öryggisfyrirtækjum á Íslandi.
Stuðningsfulltrúanám og skólaliðanám í dreifnámsfyrirkomulagi fékk styrk að fjárhæð 1.800.000 krónur. Menntasvið Reykjavíkurborgar hefur unnið verkefnið í samvinnu við Borgarholtsskóla og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Markmiðið er að hægt sé að stunda námið samhliða starfi. Með dreifnámi er átt við blöndu af hefðbundinni fjarkennslu, staðbundnum lotum í skóla og umræðutímum á netinu.
Námsefnisgerð um vöruumsýslu í smásölu fékk styrk að fjárhæð 1.500.000 krónur. Samtök verslunar og þjónustu hafa unnið verkefnið í samstarfi við Fagráð verslunar- og þjónustugreina, Starfsgreinaráð skrifstofu- og verslunargreina og verslunarbraut Borgarholtsskóla.
Starfsmenntaráð
Rétt til að sækja um styrki starfsmenntaráðs eiga samtök atvinnurekenda og launafólks, einstök fyrirtæki, einkaaðilar eða opinberir sem standa fyrir starfsmenntun í atvinnulífinu, starfsmenntaráð einstakra atvinnugreina og samstarfsverkefni á vegum tveggja eða fleiri framangreindra aðila. Einnig skólar ef um er að ræða samstarf framangreindra aðila.
Starfsmenntaráð starfar samkvæmt lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu, nr. 19/1992, og heyrir undir félagsmálaráðuneytið. Í því eiga sæti sjö fulltrúar, tveir frá Alþýðusambandi Íslands, einn frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, þrír frá Samtökum atvinnulífsins og einn fulltrúi félagsmálaráðherra.