Fiskiþing 2007
Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti
66. Fiskiþingi
Einar K. Guðfinnsson gerði stöðu íslensks sjávarútvegs og ólíka umræðu um hann, annars vegar innan greinarinnar sjálfrar og hins vegar á pólitískum vettvangi, að umfjöllunarefni í ræðu sinni á Fiskiþingi í dag. Þá fjallaði ráðherra einnig um umhverfismerkingar, alþjóðasamninga og rannsóknir og menntun í sjávarútvegi.
Ráðherra gat þess að lífskjör hafi batnað hraðar á Íslandi en flestir hafi þorað að vona, eða um 75% frá árinu 1994. „Dettur mönnum í hug að slíkt hefði gerst ef sjávarútvegurinn hefði verið einhver dragbýtur í íslensku efnahagslífi, svo stór og þýðingarmikill sem hann er? Auðvitað ekki.“
Fiskifélag Íslands vinnur nú að undirbúningi umhverfismerkis fyrir íslenskar sjávarafurðir og sagði Einar Kristinn það ekki lengur vera spurningu um hvort heldur hvernig og hvenær því yrði komið á. Það væri þó ekki vandalaust. „Það er því ljóst að alveg frá fyrsta degi verður íslenskt umhverfismerki að undirstrika sérstöðu íslenskra sjávarafurða og treysta orðspor okkar. Jafnframt því að hafa fullkominn trúverðugleika og markast af gagnsæi á öllum stigum. Við verðum að gera okkur grein fyrir að ákvörðun af þessu tagi mun hafa ýmsar afleiðingar í för með sér, t.d. um mótun auðlindanýtingar okkar. Það breytir því þó ekki að mínu mati, að við eigum að stíga þetta skref og nýta það til að treysta stöðu okkar á alþjóðlegum mörkuðum.“
Þá fjallaði sjávarútvegsráðherra um hve gjörólík umræða um sjávarútvegsmál er innan greinarinnar annars vegar og hins vegar á pólitískum vettvangi. „Það sem ég á við er að á sama tíma og sjávarútvegurinn hefur verið að breytast, þróast, dafna og taka framförum er hin pólitíska umræða um sjávarútvegsmál í meginatriðum hin sama og hún var þegar ég hóf feril minn á Alþingi árið 1991. Hún hefur lítið þróast og er bundin við mjög svipuð viðfangsefni og áður. Stóra breytingin er hins vegar sú að umræðan er ekki jafn stríð sem fyrr, hún er ekki jafn harðneskjuleg og áður eða óvægin. En galli hennar er sá að viðfangsefnin eru ekki þær breytingar og þau tækifæri sem sjávarútvegurinn felur í sér og stjórnmálamenn þyrftu að hafa í huga, “ sagði Einar Kristinn og bætti við að þoka þyrfti þjóðmálaumræðunni á þessu sviði nær því sem er efst á baugi í sjávarútveginum.
Sjávarútvegsráðuneytinu 27. apríl 2007