Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins í Osló
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 057
Í dag lauk tveggja daga fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Osló, sem Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, sótti. Á fundinum í gær ræddu ráðherrar aðgerðir bandalagsins í Afganistan og eldflaugavarnir í Evrópu. Utanríkisráðherra undirstrikaði mikilvægi þess að allir þeir sem komi að málum í Afganistan hafi með sér náið samráð og samstarf til að tryggja að árangur náist sem fyrst. Rætt var um þann mikla vanda sem ópíumframleiðsla er nú sem fyrr í Afganistan, en íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að veita framlag í sjóð til styrktar baráttunni við eiturlyf í landinu. Framlagið nemur um 7 milljónum króna. Ráðherrar voru á einu máli um að efla þyrfti þjálfun hers og lögreglu. Íslensk stjórnvöld hafa í því samhengi ákveðið að veita framlag í sjóð sem Þróunarstofnun S.þ. (UNDP) hefur umsjón með (Law and Order Fund), sem meðal annars stendur straum að kostnaði við löggæslu í Afganistan. Framlagið nemur um 7 milljónum króna. Þá munu íslenskir lögreglumenn taka þátt í þjálfunaraðgerð Evrópusambandins, sem í undirbúningi er.
Í umræðum um fyrirhugað eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna í Tékklandi og Póllandi lagði utanríkisráðherra áherslu á að náið samráð væri haft innan Atlantshafsbandalagsins um þróun málsins, og slíkt samráð yrði einnig að hafa við Rússland. Síðdegis í gær fór fram fundur í NATO-Rússlandsráðinu þar sem eldflaugavarnakerfið bar hæst í umræðum. Í ár eru fimm ár liðin frá stofnun NATO-Rússlandsráðsins og tíu ár frá því að komið var á fót sérstökum samstarfsvettvangi við Rússland innan Atlantshafsbandalagsins. Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins áttu kvöldverðarfund þar sem ástand og horfur fyrir botni Miðjarðarhafs voru rædd sem og málefni Kósóvó. Í dag funduðu utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins um Balkanskaga og stækkun bandalagsins. Ráðherrafundinum lauk með sérstökum fundi með utanríkisráðherra Úkraínu. Utanríkisráðherra sagði mikilvægt að eiga samstarf við Úkraínu á vettvangi Atlantshafsbandalagsins en stjórnvöld þar í landi yrðu að ákveða hversu víðtækt og náið samstarfs af því tagi skuli vera.
Þá átti utanríksiráðherra fund með starfssystur sinni frá Póllandi, Önnu Fotyga, um samstarf á sviði orkumála. Þær ræddu einnig málefni fundarins og ræðistengsl.