Kynning á stefnu stjórnvalda í byggingarlist og hönnun
Menntamálaráðherra skipaði um mitt ár 2005 nefnd til að gera tillögu að stefnu stjórnvalda í byggingarlist. Hún hefur nú lokið störfum. Nefndinni var ætlað að skilgreina markmið og tilgang byggingarlistastefnu, skilgreina hlutverk og skyldur ríkisins og opinberra aðila við að tryggja gæði í byggingarlist og hönnun opinberra bygginga og gera tillögur um hvernig best verði staðið að upplýsingagjöf, fræðslu og menntun varðandi byggingararf og byggingarlist.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra mun á fundi í Þjóðminjasafninu kl. 14 í dag, mánudag 30. apríl, greina frá starfi nefndarinnar ásamt nefndarmönnum og kynna stefnu stjórnvalda í byggingarlist.
Stjórnvöld bera mikla ábyrgð á manngerðu umhverfi, bæði með setningu laga og reglna, og með ákvörðunum um skipulag byggðar og uppbyggingu hennar. Opinberir aðilar eru einnig stærsti framkvæmdaaðilinn á sviði mannvirkjagerðar og geta þannig með beinum hætti haft áhrif á manngert umhverfi. Skýr og metnaðarfull stefna stjórnvalda í mannvirkjagerð getur því orðið fyrirmynd og viðmið annarra aðila.
Stefna sú sem menntamálaráðherra leggur fram nær til varðveislu mikilvægra mannvirkja og staða, til viðhalds þeirra og til nýbygginga og skipulags. Markmið hennar er að tryggja gæði og vandvirkni í byggingarlist og að leggja grunn að markvissri upplýsingagjöf, fræðslu og menntun á þessu sviði.