Úthlutað hefur verið úr Þróunarsjóði grunnskóla 2007
Úthlutað hefur verið úr Þróunarsjóði grunnskóla fyrir skólaárið 2007-2008. Menntamálaráðherra hefur ákveðið, að tillögu ráðgjafarnefndar, að veita styrki að upphæð alls 20 milljónir króna til 35 verkefna, en samtals voru umsóknir 81. Borgarbyggð fær hæsta styrkinn að þessu sinni 1,5 millj. kr. í verkefnið Borgarfjarðarbrúin, samfella milli grunn- og framhaldsskóla og innleiðing nýrrar námskrár. Næst hæsta styrkinn 1 millj. kr. fær Háteigsskóli og KHÍ til verkefnisins Teymiskennsla og valsvæðavinna.
Tilgangur sjóðsins er að efla nýjungar, tilraunir og nýbreytni í grunnskólum. Auglýst var eftir umsóknum um styrki á þremur forgangssviðum: A. Að læra að læra, vinnubrögð og verklag í námi, B. Heildarskipulag kennsluhátta og samfella milli skólastiga, C. Jafnréttisfræðsla í skólastarfi. Auk þess var auglýst eftir almennum þróunarverkefnum. Fimm manna ráðgjafarnefnd metur umsóknir og gerir tillögur til menntamálaráðherra um styrkveitingar. Í nefndinni eru fulltrúar frá Kennaraháskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, samtökum kennara og skólastjóra og menntamálaráðuneyti.
Menntamálaráðherra hefur ákveðið ný forgangssvið sjóðsins árið 2008, skapandi hugsun, samtarf og lýðræði í skólastofunni og umhverfisvitund og sjálfbær þróun Auglýst verður eftir umsóknum í byrjun janúar 2008. SRR, Símenntun, Rannsóknir, Ráðgjöf - Kennaraháskóla Íslands annast umsýslu Þróunarsjóðs grunnskóla skv. samningi við menntamálaráðuneyti. Vísað er á vef stofnunarinnar um frekari upplýsingar, srr.khi.is.