Hoppa yfir valmynd
2. maí 2007 Innviðaráðuneytið

Menningarsamningar undirritaðir

Menningarsamningar menntamálaráðuneytis og samgönguráðuneytis við sveitarfélög á Vestfjörðum og sveitarfélög á Norðurlandi vestra voru undirritaðir í gær. Tilgangur þeirra er að efla menningarstarf sveitarfélaganna og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaganna við slíkt starf í einn farveg.

samningur
Menningarsamningar undirritaðir. F.v.: Anna Guðrún Edvardsdóttir, Sturla Böðvarsson og Adolf Berndsen.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra undirritaði samningana fyrir hönd ríkisins og þau Anna Guðrún Edvardsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, og Adolf Berndsen, formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, fyrir hönd sinna svæða.

Samningarnir sem undirritaðir voru í gær eru hinir fyrstu sinnar tegundar þar sem gengið er til slíks samstarfs við sveitarfélög á Norðurlandi vestra og á Vestfjörðum. Áður hefur verið gengið til samstarfs við sveitarfélög í öðrum landshlutum með sambærilegum hætti.

Samstarfsvettvangur sveitarfélaganna á þessu sviði verður innan menningarráða. Hafa þau meðal annars það hlutverk að standa fyrir öflugu þróunarstarfi í menningarmálum, úthluta fjármagni til menningarverkefna og verkefna á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu, jafnframt því að annast framkvæmd samningsins.

Jafnframt gerð menningarsamnings milli ríkis og sveitarfélaga munu sveitarfélögin ganga frá samstarfsamningi sem snýst um að samræma aðgerðir á sviði menningarmála á þeirra starfssvæði. Norðurland vestra verður eitt starfssvæði en á Vestfjörðum eru skilgreind þrjú samstarfssvæði, Strandasýsla og Reykhólahreppur, Vestur-Barðastrandasýsla og Ísafjarðarsýsla.




Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta