Samningur við World-Check um aðgang lögreglu og ríkisstofnana að gagnabanka fyrirtækisins
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur gert samning við fyrirtækið World-Check um aðgang lögreglu og ríkisstofnana að gagnabanka fyrirtækisins.
Í gagnabanka World-Check hefur verið safnað úr opinberum heimildum, þ. m. t. fjölmiðlum, upplýsingum um fjármálaumsvif og tengsl fyrirtækja og einstaklinga. Gagnabankinn auðveldar áhættugreiningu fjármálafyrirtækja og stjórnvalda, einkum í þeim tilgangi að berjast gegn peningaþvætti. Í upphafi þjónaði fyrirtækið fyrst og fremst bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum en síðan hafa opinberir aðilar í fjölmörgum ríkjum, s.s. lögregla, stofnanir sem hafa eftirlit með útlendingum, fjármálaeftirlit o.fl. keypt þjónustu fyrirtækisins. World-Check gerði á síðasta ári samning við banka hér á landi og bera þeir viðskiptamannaskrá sína saman við gagnabanka fyrirtækisins. Alþjóðlegir eftirlitsaðilar telja aðgang stjórnvalda og banka að gagnabanka Word-Check öflugt tæki til að takast á við peningaþvætti og aðra ólögmæta, alþjóðlega fjármálastarfsemi.
Samningurinn við World-Check er gerður til eins árs til reynslu.
Reykjavík, 2. maí 2007