Hoppa yfir valmynd
2. maí 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tekjuteygni skatta

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 26. apríl 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fjármálaráðuneytið er sífellt að þróa og betrumbæta aðferðir við mat á efnahagslegum forsendum tekjuþróunar ríkissjóðs.

Metinn teygnistiki tekjuskatts einstaklinga – hlutfallslegur vöxtur skatttekna fyrir ákveðinn vöxt undirliggjandi skattstofns – hefur mikið upplýsingagildi fyrir annars vegar tekjuspárgerð fyrir ríkissjóð og hins vegar um það hversu ríkir sveiflujafnandi eiginleikar tekjuskattskerfisins eru.

Teygnistikinn getur hvoru tveggja nýst við tekjuspárgerð til skamms og meðallangs tíma og verður þá að hafa í huga að stikamatið er breytileg stærð. Einnig nýtist hann við tekjuspárgerð til langs tíma við til dæmis mat á sjálfbærni ríkisfjármála.

Í nýjustu útgáfu Þjóðarbúskaparins er greint frá rannsókn fjármálaráðuneytisins. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að teygnistikamat sem nota má til tekjuspárgerðar til skamms eða meðallangs tíma liggur á bilinu 1,0 til 1,3. Efri mörkin ættu frekar við ef nokkurs samdráttar eða vaxtar væri að vænta en neðri mörkin ef stöðugar horfur eru um þróun í hagkerfinu og á vinnumarkaði. Því verður að horfa til hagvísa og þá sérstaklega spannar væntra magnbreytinga til að ákvarða hvar innan vikmarkanna teygnistikinn liggi á hverjum tíma.

Til samanburðar má benda á að teygnistiki útsvars sveitarfélaga er 1,0 þar sem útsvarið er í raun flatur skattur en persónuafsláttur dregst alfarið af tekjuskatti ríkissjóðs. Tölugildum vikmarka teygnistikans ber vel saman við erlend stikamöt en flökt í mældri teygni hefur þó verið meira erlendis en mælist hér. Í framhaldinu verður rannsókninni beint að teygni gagnvart landsframleiðslunni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta