Umhverfisráðherra hjólar af stað fyrirtækjakeppni
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra tók þátt í opnunarhátíð keppninnar ,,Hjólað í vinnuna" í gær og hjólaði verkefninu af stað ásamt fleirum. Það er Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands sem skipuleggur keppnina. Umhverfisráðherra sagði við þetta tækifæri að átakið myndi ekki bara hafa jákvæð áhrif fyrir þá sem hjóluðu í vinnuna, því að um leið og þeim fækkaði sem færu akandi til vinnu þá batnaði umhverfið í bæjum og borgum. Þannig legði Íþrótta- og ólympíusambandið lóð á vogarskálar umhverfisverndar. Hver sá sem skildi bílinn eftir heima og færi hjólandi til vinnu gerði ekki bara sjálfum sér og sinni heilsu gott, heldur hefði sá hinn sami jákvæð áhrif á allt umhverfi sitt með því draga úr hávaða og losun gróðurhúsalofttegunda og auka loftgæðin í borginni.
Starfsfólk umhverfisráðuneytisins er meðal þátttakenda í keppninni.
Sjá frétt á vef Íþrótta- og Ólympíusambandsins.