Skipað í nefnd sem úthlutar heimildum til losunar á gróðurhúsalofttegundum
Umhverfisráðuneytið hefur skipað þriggja manna úthlutunarnefnd losunarheimilda samkvæmt lögum um losun gróðurhúsalofttegunda. Nefndinni er falið það hlutverk að úthluta losunarheimildum til atvinnurekstrar sem fellur undir gildissvið laganna á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012.
Nefndin er skipuð þeim Sveini Þorgrímssyni, skrifstofustjóra í iðnaðarráðuneytinu, Kristínu Lindu Árnadóttur, lögfræðingi á skrifstofu laga- og upplýsingamála í umhverfisráðuneytinu og Angantýr Einarssyni, sérfræðingi á rekstrar- og upplýsingaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Sveinn er formaður nefndarinnar.
Umhverfisstofnun skal vera úthlutunarnefndinni til ráðgjafar varðandi umsóknir um losunarheimildir og allt annað sem nefndin óskar aðstoðar við.
Lög um losun gróðurhúsalofttegunda voru samþykkt á Alþingi í vetur og þeim er ætlað að tryggja að losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju hér á landi verði ekki meiri en skuldbindingar Íslands samkvæmt Kýótó-bókuninni leyfa. Lögin skapa stjórnvöldum tæki til að takmarka losun koldíoxíðs ef stefnir í að losun fari yfir leyfileg mörk.
Helsta nýmæli laganna er að atvinnurekstur sem losar a.m.k. 30.000 tonn koldíoxíðs á ári er skyldaður til þess að afla sér losunarheimilda sem nægja fyrir losuninni. Nú falla fjögur stóriðjufyrirtæki sem eru starfandi eða í þann veginn að hefja starfsemi undir þær skilgreiningar sem eru í lögunum. Þessi atvinnurekstur og annar sem kann að falla undir ákvæði laganna á tímabilinu 2008-2012 geta aflað sér losunarheimilda með því að sækja um úthlutun til úthlutunarnefndarinnar sem nú hefur verið skipuð. Nefndin úthlutar losunarheimildum innan heildar heimilda Íslands samkvæmt Kýótó-bókuninni og úthlutar þeim til atvinnureksturs eftir reglum sem tilgreindar eru í lögunum. Nefndin mun á þessu ári gera áætlun um úthlutun á tímabilinu í heild, þannig að starfandi atvinnurekstur og atvinnurekstur sem hyggur á rekstur á tímabilinu 2008-2012 geti gert áætlanir til samræmis við það.
Fari hins vegar svo að atvinnurekstur losi meira magn koldíoxíðs en það fær úthlutað heimildum fyrir, þarf fyrirtækið sjálft að afla sér viðbótarheimilda með fjármögnun skógræktar- eða landgræðsluverkefna eða öflun viðurkenndra heimilda erlendis frá. Lögin koma því ekki í veg fyrir losun frá stóriðju umfram heimildir Íslands, en tryggja að kostnaður vegna slíkrar umframlosunar falli ekki á íslensk stjórnvöld og að þau gerist ekki brotleg við skuldbindingar sínar samkvæmt Kýótó-bókuninni.
Hér má nálgast lögin í heild sinni.