Tekjuskattar lögaðila
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 10. maí 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Frá árinu 2003 hefur ríkt samfellt hagvaxtarskeið þar sem verg landsframleiðsla hefur aukist um 21,5% að raungildi.
Það eru einkum þjónustugreinar í einkageiranum og byggingarstarfsemi sem hafa lagt hvað mest af mörkum til aukinnar landsframleiðslu á undanförnum árum en þessi þróun endurspeglast í þróun tekna ríkissjóðs af tekjuskatti lögaðila. Nú er áætlað að tekjuskattur lögaðila árið 2006 skili sem nemur 33,5 milljörðum króna í ríkissjóð en það samsvarar um fjórðungi af áætluðum skatttekjum ríkissjóðs á tekjur og hagnað.
Tekjuskattur lögaðila var lækkaður úr 30% í 18% árið 2002. Ásamt öðrum skipulagsbreytingum hefur það haft örvandi áhrif á starfsemi fyrirtækja hér á landi og utan landsteinanna. Tekjuskattur lögaðila sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hefur hækkað undanfarin ár, en hann var 1,4% að meðaltali árin 2000-2004, 2,3% árið 2005 og 2006 er gert ráð fyrir að hlutfallið sé 3%. Aukinn þróttur í starfsemi fyrirtækja hefur jafnframt haft óbein áhrif til aukningar á skatttekjum ríkissjóðs í tengslum við þau mörgu vel launuðu störf sem skapast hafa og aukna veltu í þjóðfélaginu í tengslum við þau.
Það sem einkennir öðru fremur mikinn vöxt í tekjuskatti lögaðila undanfarin tvö ár er aukinn hlutur atvinnugreinarinnar fjármálaþjónusta, lífeyrissjóðir og vátryggingar. Ef samanburður er gerður milli ára á álagningu Ríkisskattstjóra þá er hlutur fjármálafyrirtækja af álögðum tekjuskatti lögaðila 38% árið 2006 og tæpur fjórðungur árið 2005. Meðaltal áranna fimm þar á undan var aftur á móti 13%.
Á myndinni má sjá vísitölu tekjuskatts lögaðila í stærstu atvinnugreinunum, en við álagningu 2006 er gert ráð fyrir að þessar greinar skili 88% af heildartekjuskatti lögaðila. Skatttekjur af byggingarstarfsemi og fiskveiðum og -vinnslu hafa einnig aukist að raungildi á þessu átta ára tímabili. Tvær atvinnugreinar, verslun og iðnaður að frátöldum fiskiðnaði, skila aftur á móti óbreyttum tekjuskatti að raungildi á þessu árabili.