Leiðsögumönnum verður heimilt að sækja felld hreindýr á vélknúnum ökutækjum
Samkvæmt reglugerð um takmarkanir á umferð um náttúru Íslands sem sett var í júní 2005 hefur verið óheimilt að aka vélknúnum ökutækjum utan vega nema á snævi þakinni og frosinni jörð svo fremi að ekki skapist hætta á náttúruspjöllum. Að auki hefur verið heimilt að aka utan vega við ákveðin störf, t.d. landgræðslu, heftingu landbrots, vegalagnir, björgun og landbúnað. Síðan að þessi reglugerð var sett hafa komið fram athugasemdir þess efnis að leiðsögumenn með hreindýraveiðum þyrftu að njóta sams konar undantekningar. Því til stuðnings hefur verið vísað til mikilvægis þess að koma bráð óskemmdri til byggða en víða hagar því þannig til að veiðislóð hreindýra er fjarri akstursleiðum. Því hefur í sumum tilvikum reynst ógjörningur að koma skrokkum felldra dýra tímanlega í viðunandi kælingu og vinnsluaðstöðu.
Til þess að bregðast við þessu hefur umhverfisráðuneytið ákveðið að veita leiðsögumönnum með hreindýraveiðum heimild til að sækja bráðina á léttum vélknúnum ökutækjum að lágmarki með sex hjólum, ef leiðsögumaður metur það svo að ekki sé hætta á náttúruspjöllum. Heimildin gildir þó eingöngu þar sem dýr hafa verið felld fjarri vegum og óheimilt er að nýta ökutækið til að elta dýrið uppi. Umhverfisráðherra undirritaði breytingu á reglugerðinni í dag.
Leiðsögn með hreindýraveiðum er starfsréttindi sem leiðsögumenn afla sér með námskeiðum og staðþekkingu á veiðisvæðum.