Hoppa yfir valmynd
24. maí 2007 Innviðaráðuneytið

Á vegamótum

Vegamót eru framundan hjá mér. Þær breytingar verða nú að ég læt af embætti samgönguráðherra eftir átta ára starf á vettvangi þessa umfangsmikla málaflokks. Nýtt verkefni tekur við, að gerast forseti Alþingis, og þykist ég vita að það verður áhugavert og krefjandi verkefni.

Sturla Böðvarsson
Sturla Böðvarsson

Við þetta tækifæri reikar hugurinn tilbaka og staldrar víða við. Mér er efst í huga þakklæti til samstarfsmanna í ráðuneytinu um lengri eða skemmri tíma. Einnig til kjósenda Sjálfstæðisflokksins og samverkamanna þar sem hafa stutt mig í verkefnum mínum í samgönguráðuneytinu.

Verkefnin í samgönguráðuneytinu hafa verið mörg og yfirgripsmikil. Þau hafa tengst umbótum á öllum sviðum samgöngukerfisins. Þau hafa snúist um víðtæka áætlanagerð í uppbyggingu samgöngumannvirkja, öryggismál í flugi, siglingum og umferð, bætta þjónustu á sviði fjarskipta og markaðsaðgerðir og landkynningu í þágu ferðaþjónustunnar sem hefur vaxið gríðarlega. Allt þetta starf hefur miðað að því að bæta búsetuskilyrðin í landinu, gera samgöngur öruggari og jafna aðstöðumun landsmanna hvað varðar val á búsetu.

Þessi verkefni hafa krafist stefnumótunar, skipulagsvinnu, fjármuna og úrvinnslu. Ráðherra setur stefnuna og leggur línur varðandi skipulag, Alþingi ræður fjárveitingum og starfsmenn og sérfræðingar ráðuneytisins og viðkomandi stofnana sinna úrvinnslu. Allt þetta þarf að ganga upp með góðu samráði. Þetta tel ég hafa tekist og lít stoltur til baka. Ég vil hvetja lesendur þessara lína til þess að kynna sér verkefni ráðuneytisins í ritunum Samgöngur á nýrri öld og Samgöngur í þágu þjóðar. Þar er að finna gott yfirlit um verkefnin sem unnið hefur verið að í ráðuneytinu þau átta ár sem ég hef gegnt starfi samgönguráðherra.

Ég viðurkenni að ég mun sakna samstarfsfólksins og verkefnanna í ráðuneytinu sem hafa átt hug minn allan síðustu átta árin. En nú tekur annað við og sem þingmaður og verðandi forseti Alþingis mun ég áfram fylgjast með samgöngumálum og vinna að framgangi þeirra eftir því sem mér er unnt.

Að lokum þakka ég frábært samstarf við þá sem hafa unnið með mér í ráðuneytinu og við starfsmenn stofnana ráðuneytisins og óska eftirmanni mínum velfarnaðar í embætti.

Sturla Böðvarsson


Hér má sjá ritið Samgöngur í þágu þjóðar, útgefið í maí 2007.

 

Hér má sjá ritið Samgöngur á nýrri öld frá 2003.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum