Jafnréttiskennitalan
Rannsóknasetur vinnuréttar og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst hefur birt upplýsingar um jafnrétti í 100 stærstu fyrirtækjum landsins. Miðað var við ársveltu fyrirtækja samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Lánstrausti. Upplýsingaöflun fór fram á tímabilinu 23. apríl til 15. maí 2007.
Helstu niðurstöður eru þær að konur skipa 8% stjórnarsæta og eru 14% meðal æðstu stjórnenda fyrirtækjanna. Vegna þess að farin var sú leið að miða við ársveltu er vakin athygli á því að hluti fyrirtækjanna í úrtakinu eru eignarhaldsfélög með mjög fáa starfsmenn. Rannsóknin er gerð í samvinnu við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Bifröst.
Birting upplýsinga um jafnrétti í 100 stærstu fyrirtækjunum er liður í verkefninu jafnréttiskennitalan, en samstarfsaðilar verkefnisins eru viðskiptaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri, jafnréttisráð og Jafnréttisstofa.
Í skýrslunni eru niðurstöður bornar saman við árið 2005 og helstu niðurstöðurnar eru þessar:
- Konur skipa 8% stjórnarsætanna (32 af 408 stjórnarsætum). Árið 2005 var hlutfall þeirra 12%.
- Konur eru 14% meðal æðstu stjórnarmanna fyrirtækjanna (46 konur af 328 forstjórum og framkvæmdastjórum). Árið 2005 var hlutfall þeirra um 10%.
- Þriðjungur fyrirtækjanna eru með skriflega jafnréttisáætlun.
- Engin kona er í stjórn 71% fyrirtækjanna
- Meðal 100 stærstu fyrirtækjanna voru þrjú með konu sem stjórnarformann. Árið 2005 voru þær fimm.
- Tólf fyrirtæki eru með konur í þriðjung stjórnarsæta eða meira og eru það; Árdegi hf., Diskurinn ehf., Edda – útgáfa hf., Fasteignafélagið Stoðir hf., Fríhöfnin ehf., Hagar hf., Hraðfrystistöð Þórshafnar hf., Íslensk-ameríska verslunarfélagið ehf., Landsnet hf., Nýsir hf., Rúmfatalagerinn ehf. og Þyrping hf.
- Konur voru í tæplega 8% stjórnarsæta af þeim fyrirtækjum á listanum sem skráð eru í Kauphöll. Þar af gegndi engin kona stjórnarformennsku.
Elín Blöndal er forstöðumaður Rannsóknaseturs vinnuréttar og jafnréttismála.