Hoppa yfir valmynd
24. maí 2007 Innviðaráðuneytið

Nýr samgönguráðherra hefur tekið við

Kristján L. Möller tók við embætti samgönguráðherra og fékk lyklavöld af skrifstofu ráðuneytisins hjá Sturlu Böðvarssyni, fráfarandi samgönguráðherra. Kristján er þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi og hefur setið á Alþingi frá árinu 1999.

Sturla Böðvarsson gefur Kristjáni L. Möller góð ráð.
Sturla Böðvarsson gefur Kristjáni L. Möller góð ráð.

Sturla Böðvarsson, fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis, sem setið hefur á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 1991 og verið samgönguráðherra frá árinu 1999, tók á móti Kristjáni og kvaddi um leið samstarfsfólk sitt í ráðuneytinu.

Við þetta tækifæri sagði Sturla Böðvarsson meðal annars að í samgönguráðuneytinu væri unnið eftir langtímaáætlunum í öllum málaflokkum. ,,Þetta á við samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og ferðamálaáætlun og jafnframt höfum við lagt áherslu á að bæta stjórnsýslu með miklum skipulagsbreytingum í ráðuneytinu. Á þessum tímamótum get ég ánægður staðið upp frá þessum vettvangi og tel að nýr ráðherra taki við góðu búi. Þannig er málum háttað með samgönguráðuneytið að það er eins og stórt tankskip sem tekur langan tíma að snúa við og ég vona að Kristjáni Möller gangi vel að sigla eftir svipaðri stefnu og ég hef gert,” sagði Sturla Böðvarsson meðal annars.

Kristján L. Möller kvaðst sannfærður um að hann tæki við góðu búi. ,,Skipið er drekkhlaðið og það er gott þegar svo er og vonandi kemst skipið heilt í höfn,” sagði nýi ráðherrann og Sturla kvaðst vera viss um það þar sem öryggismálin væru í góðu lagi.

Eftir að þeir Kristján og Sturla höfðu skipst á kveðjum og árnaðaróskum heilsaði samgönguráðherrann uppá starfsfólk ráðuneytisins og kvaðst hann hlakka til að starfa að áhugaverðum málefnum sem væru á dagskrá ráðuneytisins.

Ævi- og starfsferil Kristjáns L. Möller má sjá hér.

       
 Kristján L. Möller hefur sest í stól samgönguráðherra.      
 Kristján L. Möller hefur sest í stól samgönguráðherra.      
       

       
Starfsfólk samgönguráðuneytisins fylgist með nýjum ráðherra máta stólinn.      
 Starfsfólk samgönguráðuneytisins fylgist með nýjum ráðherra máta stólinn.      
       

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum