Hoppa yfir valmynd
25. maí 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ráðherrafundur OECD í París

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 24. maí 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Árlegur ráðherrafundur OECD var haldinn í París 15.- 16. maí en þar voru tekin fyrir aðkallandi málefni sem varða aðildarríkin.

Fjallað var um alþjóðavæðingu og voru ráðherrar sammála um mikilvægi hennar fyrir áframhaldandi hagvöxt í heiminum. Þau ríki OECD sem eru opnari fyrir alþjóðaviðskiptum hafa vaxið hraðar en þau sem ekki eru jafn opin. Bent var á nauðsyn þess að bregðast rétt við erfiðleikum sem geta komið upp í aðlögun að alþjóðavæðingu. Í því sambandi lögðu ráðherrar áherslu á mikilvægi rannsókna á áhrifum alþjóðavæðingar á grundvelli traustra gagna og þverfaglegrar greiningar.

Á fundinum var efnahagssástand ríkjanna skoðað og lýstu ráðherrar yfir ánægju með stöðugan efnahagsbata í Evrópu með minnkandi atvinnuleysi og áframhaldandi vöxt í Asíu. Hægari hagvöxtur í Bandaríkjunum er rakinn til ástands á húsnæðismarkaðnum þar í landi. Ekki eru taldar miklar líkur á slíkri þróun alþjóðlega.

Vegna aukins hagvaxtar og hækkandi orkuverðs hefur verðbólga í ríkjum OECD verið á uppleið þótt hún sé enn innan ásættanlegra marka. Ráðherrar lögðu áherslu á að mikilvægi þess að bæta stöðu ríkisfjármála í uppsveiflunni, sérstaklega í ríkjum með gegnumstreymiskerfi í lífeyrissjóðamálum sem standa frammi fyrir auknum útgjöldum á komandi árum vegna öldrunar samfélagsins.

Á fundinum var lögð áhersla á mikilvægi þess að hafa skýra stefnu á sviði tækninýjunga, en árangur þar skiptir sífellt meira máli fyrir þróun samkeppnishæfni og landsframleiðslu ríkja með opin hagkerfi. Í því sambandi er talið mikilvægt að styrkja menntakerfið til að tryggja nægt framboð af starfskröftum með viðeigandi þekkingu.

Einnig er mikilvægt að stuðla að auknu framboði fjármagns frá einkaaðilum til nýsköpunar á sviði tækninýjunga. Bent var á mikilvægi tækninýjunga til að takast á við víðtæk umhverfisvandamál á borð við loftslagsbreytingar. Ráðherrarnir voru sammála um þörfina fyrir heildstæða og samhæfða opinbera stefnu til að bæta frammistöðu á þessu sviði.

Ákveðið var að marka nýja stefnu fyrir OECD á sviði tækninýjunga á grundvelli greiningar og samanburðar á milli ríkja. Stefnan verður byggð á grunnviðmiðum, nýjum hagvísum sem sýna samband tækninýjunga og hagvaxtar, reglubundinni skýrslugerð sem metur árangur ríkja á þessu sviði og þróun á leiðarvísum og ráðleggingum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta