Nýr samgönguráðherra kynnir sér stofnanir áðuneytisins
Kristján L. Möller samgönguráðherra hefur í dag og í gær heimsótt nokkrar stofnanir sem heyra undir samgönguráðuneytið. Næstu daga mun hann halda áfram þeirri vegferð og segir hann þýðingarmikið að kynnast sem best allri starfsemi ráðuneytisins, innan þess sem utan.
Fyrsta stofnunin sem nýr samgönguráðherra heimsótti var Vegagerðin. Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri tók á móti ráðherra ásamt nánustu samstarfsmönnum og greindu þau frá skipulagi Vegagerðarinnar og helstu þáttum starfseminnar. Síðan fór ráðherra um stofnunina og heilsaði uppá starfsfólk sem hefur aðsetur í miðstöðinni við Borgartún.
Næst lá leiðin til Ferðamálastofu þar sem Magnús Oddsson ferðamálastjóri og fleiri tóku á móti ráðherra og fylgdarliði. Ferðamál verða flutt frá samgönguráðuneytinu í iðnaðarráðuneytið um næstu áramót. Ráðherrann kvaðst engu að síður vilja kynna sér þennan málaflokk en undirbúningur að flutningnum er hafinn.
Þriðja stofnunin sem samgönguráðherra heimsótti í þessari lotu var Umferðarstofa. Karl Ragnars, forstjóri Umferðarstofu, kynnti starfsemina ásamt nokkrum samstarfsmönnum. Var ekki síst staldrað við aðgerðir í umferðaröryggisáætlun en fjármagn hefur meðal annars verið aukið til tækjakaupa fyrir umferðareftirlit lögreglunnar.
Kristján L. Möller samgönguráðherra spjallar hér við Magnús Oddsson ferðamálastjóra. Lengst til vinstri er Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og lengst til hægri Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu. | |||
Í heimsókn hjá Umferðarstofu. Karl Ragnars forstjóri kynnti starfsemina fyrir Kristjáni L. Möller, Ragnhildi Hjaltadóttur og Birnu Hreiðarsdóttur. | |||