Breyting á reglugerð nr. 501/1997 um ökuskírteini
Með lögum nr. 69/2007 um breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987 urðu ýmsar breytingar á umferðarlögum. Meðal annars voru reglur um unga ökumenn hertar nokkuð. Sjá nánar á vef Alþingis.
Þessar breytingar gera nauðsynlegt að breyta reglugerð nr. 501/1997 um ökuskírteini eins og meðfylgjandi drög að breytingum á reglugerðinni bera með sér.
Helstu breytingar varðar útfærslu á tímalengd bráðabirgðaskírteinis (1. gr.), en gert er ráð fyrir að bráðabirgðaskírteini gildi í þrjú ár í stað tveggja áður.
Þess er ekki lengur krafist að byrjandi, sem ekki fullnægir kröfum til þess að fá fullnaðarskírteini, fari í akstursmat áður en hann fær bráðabirgðaskírteini, sbr. 51. gr. umferðarlaga (2. gr.)
Lagt er til að nánari ákvæði verði sett í reglugerðina um afturköllun ökuréttinda, akstursbann og hæfnispróf að loknum sviptingartíma (3 - 6. gr.). Varða þessar greinar þá sem eru handhafar bráðabirgðaskírteinis.
Í nýjum viðauka við núgildandi reglugerð um ökuskírteini, XI. viðauka, eru útlistaðar reglur um sérstakt námskeið vegna akstursbanns, hverjum sé skylt að sækja slíkt námskeið, markmið, tilhögun og umsjón (7. ? 9. gr.).
Óskað er eftir áliti hagsmunaaðila á þessum breytingum svo og öðru sem máli kann að skipta vegna fyrirhugaðrar reglugerðarbreytingar. Frestur til að koma með athugasemdir vegna reglugerðardraganna er til 8. júní næstkomandi og skulu þær sendar á netfangið [email protected].