Tilskipun ESB um endurskoðun ársreikninga
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 31. maí 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í maí á síðasta ári samþykkti Evrópusambandið tilskipun 43/2006/EB. Vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum ber að innleiða tilskipunina í íslenskan rétt.
Tilskipunin fjallar um endurskoðun á árs- og samstæðureikningum og eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Eitt helsta markmið hennar er að tryggja að fjárfestar og aðrir hagsmunaaðilar geti fullkomlega treyst endurskoðuðum reikningum. Tilskipunin gerir meðal annars ríkar kröfur til óhæðis og faglegrar þekkingar endurskoðenda og ber stjórnvöldum að sjá til þess að til staðar sé öflugt opinbert eftirlit með endurskoðendum og störfum þeirra. Í tilskipuninni eru jafnframt gerðar kröfur um reglulegt gæðaeftirlit með endurskoðendum og að þeir skuli hafa undirgengist viðurkenndar siðareglur.
Þann 1. september sl. skipaði fjármálaráðherra starfshóp sem hefur það hlutverk að gera heildarúttekt á lögum um endurskoðendur og setja fram tillögur að endurbótum á þeim með hliðsjón af ofangreindri tilskipun. Áætlað er að starfshópurinn skili tillögum sínum fyrir áramót en reikna má með að innleiðing tilskipunarinnar kalli á töluverðar breytingar á núgildandi lögum um endurskoðendur.