Hoppa yfir valmynd
3. júní 2007 Innviðaráðuneytið

Sjötíu ára flugafmæli fagnað

Fagnað var 70 ára afmæli Icelandair og forvera þess á Akureyrarflugvelli í dag. Kristján L. Möller samgöngráðherra óskaði fyrirtækinu heilla á þessum tímamótum og Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, færði Flugsafninu á Akureyri að gjöf gamla flugvél ásamt rekstrarstyrk.

Flugafmæli fagnað á Akureyri
Samgönguráðherra í hópi flugmanna. Frá vinstri: Arngrímur Jóhannsson, Kristján L. Möller, Gestur Einar Jónasson og Magnús Þorsteinsson.

Í ávarpi sínu sagði Kristján L. Möller meðal annars að stofnun Flugfélags Akureyrar hefði lagt grunninn að því atvinnuflugi sem nú væri stundað á Íslandi. ,,Þeir framsýnu og dugandi menn sem hófu sig til flugs létu ekki bugast þótt flugskilyrðin væru ekki alltaf góð. Þeir fundu ávallt leiðir til að halda áfram rekstri og sinna þeirri mikilvægu þjónustu sem þeir stofnuðu til og íslenskur almenningur var fljótur að tileinka sér,” sagði samgönguráðherra einnig.

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, sagði í ávarpi sínu að margt hefði breyst í 70 ára sögu en þó væri enn í dag fyrir hendi sama ástríðan og sami frumkvöðlakrafturinn í rekstri félagsins. Hann sagði þotur Icelandair hefja sig til flugs 50 til 60 sinnum á dag víðs vegar um heiminn og vélar Flugfélags Íslands kringum 50 sinnum á dag. Jón Karl færði Flugsafninu að gjöf vél af gerðinni Stinson Reliant ásamt 7 milljóna króna rekstrarstyrk. Er það vél sömu gerðar og þrír ungir flugmenn höfðu með sér frá Kanada árið 1943 og stofnuðu uppúr því Loftleiðir.

Þristurinn Páll Sveinsson var á staðnum og í lok athafnarinnar var honum flogið í lágflugi nokkrar ferðir yfir Akureyrarflugvöll.


Icelandair-menn fagna flugafmæli á Akureyri.
Forstjóra Icelandair, Jóni Karli Ólafssyni, var færður flugmannsjakki og viðeigandi höfuðfat en flugmenn og flugfreyjur voru viðstödd athöfnina og voru þau í eldri gerðum einkennisbúninga.
Flugsafnið fær flugvél að gjöf.
Icelandair færði Flugsafninu á Akureyri að gjöf Stinson Reliant flugvél ásamt rekstrarstyrkt en safnið verður formlega opnað síðar í þessum mánuði. Frá vinstri: Arngrímur Jóhannsson, Jón Karl Ólafsson og Svanbjörn Sigurðsson sem hefur verið aðalhvatamaðurinn að stofnun Flugsafnsins.
Flug á Akureyri

Þristinum var flogið nokkrum sinnum yfir völlinn í lágflugi í lok afmælisdagskrárinnar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta