Umræður á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra
Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Í nýrri ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefur mér verið falið að fara með ráðuneyti umhverfismála. Ég fagna því að fá að takast á við þann málaflokk, það er brýnt að ná víðtækri sátt um náttúru- og umhverfisvernd hér á landi. Þess vegna má segja að umhverfismálin séu miðlæg í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.
Ég lít svo á að það sé verkefni mitt og stjórnarmeirihlutans að skapa slíka sátt í samvinnu við stjórnarandstöðu og almenning, sátt sem byggir á upplýstum ákvörðunum, sátt sem tryggir verndun og varðveislu mikilvægra náttúruverðmæta og tækifæri fólksins í landinu til að búa í haginn fyrir framtíðina. Takist okkur sem hér sitjum að skapa slíka sátt verður það stærsti sigur náttúru- og umhverfisverndar á Íslandi.
Hlutverk stjórnvalda er ekki að efna til ófriðar um þessi mál, þau mál sem varða hag og framtíð landsmanna mestu, heldur er það hlutverk okkar að finna lausnir sem henta þeim tímum sem við lifum á. Mona Sahlin, formaður sænska jafnaðarmannaflokksins, sagði á landsfundi Samfylkingarinnar í vor að spurningarnar sem jafnaðarstefnan þyrfti að svara væru ávallt hinar sömu en svörin væru hins vegar alltaf ný og í takt við þá tíma sem við lifum á. Vægi umhverfis- og náttúruverndar eykst og viðfangsefni sem fyrir nokkrum árum þóttu fjarlæg og flókin eru nú dagleg úrlausnarefni fólks um allan heim. Afleiðingar loftslagsbreytinga eru gleggsta dæmið um þetta.
Af þessum sökum er það m.a. verkefni stjórnvalda að færa umhverfismálin nær hinum almenna borgara með því markmiði að umhverfisverndin fléttist inn í daglegt líf okkar allra. Í þeim efnum hef ég reyndar litlar áhyggjur af yngstu kynslóðum landsmanna. Það kann hins vegar að vera flóknara að eiga við þá sem eldri eru. Öflug fræðsla, hagrænir hvatar í efnahagslífinu og skýr stefnumótun sem hefur markmið í anda sjálfbærrar þróunar á sviði umhverfismála er sá grunnur sem byggja þarf á. Það eru fjöldamörg verkefni fram undan.
Til að hægt verði að hefjast sem fyrst handa um metnaðarfull áform um verndun verðmætra náttúrusvæða hefur ríkisstjórnin einsett sér að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009. Strax og vinnunni verður lokið verður áætlunin lögð fyrir Alþingi til afgreiðslu og henni gefið lögformlegt gildi. Í forgang verður sett, eins og fram hefur komið, að vernda háhitasvæði landsins og meta verndargildi þeirra. Þessa nauðsynlegu grunnvinnu höfum við lengi beðið eftir að fá að vinna. Í þessum efnum munu ráðuneyti umhverfis og iðnaðar eiga náið samstarf.
Á sviði loftslagsmála verður ráðist í að gera framkvæmdaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Aðgerðir sem miða að því að stemma stigu við loftslagsbreytingum og hlýnun lofthjúpsins eru meðal brýnustu verkefna samtímans. Það er skylda okkar að skapa almennan ramma sem hvetur fólk og fyrirtæki til þess að draga úr mengun, t.d. með því að hygla umhverfisvænum bílum á kostnað þeirra sem menga meira svo eitt lítið dæmi sé nefnt.
Íslendingar eiga einnig að vera í fararbroddi þeirra sem vilja ná viðunandi samningum um annað skuldbindingatímabil Kyoto-bókunarinnar við loftslagssamninginn og í þeim efnum ber okkur að axla siðferðilega ábyrgð á því að stemma stigu við loftslagsbreytingum í heiminum.
Hæstv. forseti. Í fjóra áratugi hafa deilur staðið um mörk Þjórsárvera. Allir vita að friðlýsingin frá 1981 var ekki öllum að skapi, sumir tala um málamiðlun. Það er því mikið fagnaðarefni að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er skýrt kveðið á um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna. Ég hef sem nýr umhverfisráðherra einsett mér að gera það sem í mínu valdi stendur til að leiða þetta mál til lykta á yfirstandandi kjörtímabili. Til að svo megi verða áskil ég mér rétt til þess að fara vandlega yfir þau gögn sem til eru í ráðuneyti og hjá fagstofnunum þess og kalla til ráðslags þá sem besta yfirsýn hafa og þekkingu á gildi Þjórsárvera. Aðeins þannig verður hægt að tryggja stækkun friðlandsins og verndun Þjórsárvera allra.
Góðir landsmenn. Ég vænti þess að samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu verði gott og farsælt á öllum sviðum og ekki síst á sviði umhverfismála. Allt bendir til þess að svo geti orðið og ég mun leggja mig fram um það. — Góðar stundir.