Íslendingar í Danmörku
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 31. maí 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Vefrit fjármálaráðuneytisins hefur áður greint frá því að flestir Íslendingar sem flust hafa utan á undanförnum áratugum hafa farið til Danmerkur.
Í tölum dönsku hagstofunnar (Danmarks Statistik) kemur fram að um síðastliðin áramót hafi búið þar í landi rúmlega 7.800 íslenskir ríkisborgarar. Af þeim töldust 3.200 hafa verið starfandi. Á starfsaldri (16-74 ára) voru 5.900 og því er hlutfall starfandi 54%.
Ekki er á þessu stigi vitað hversu margir Íslendingar töldust atvinnulausir í Danmörku en sé tekið mið af því að sama hlutfall er 80% á Íslandi er mjög líklegt að fjöldi þeirra sem er við nám sé töluverður.
Lánþegar LÍN í Danmörku hafa verið um það bil 1.000 undanfarin ár. Sumir þeirra fara til starfa eftir það á þeim vettvangi sem þeir hafa menntað sig til en aðrir við það sem þeir störfuðu við hérlendis. Enn aðrir fara utan til að reyna eitthvað nýtt og fara þá til starfa í ýmsum atvinnugreinum þar sem ekki eru gerðar kröfur til menntunar. Þá má ekki gleyma íslenskum starfsmönnum útrásarfyrirtækjanna. Því er fróðlegt að sjá við hvað íbúar þessarar fjölmennustu íslensku „nýlendu“ starfa.
Hlutfallsleg skipting starfandi Íslendinga (%)
Atvinnugrein
|
IS
|
DK
|
---|---|---|
Landbúnaður |
2,4
|
1,2
|
Fiskveiðar |
2,7
|
0,6
|
Fiskvinnsla |
3,3
|
2,6
|
Annar iðnaður |
9,7
|
9,3
|
Veitustarfsemi |
1,0
|
0,2
|
Mannvirkjagerð |
7,8
|
7,5
|
Verslun og viðgerðaþjónusta |
14,1
|
12,3
|
Hótel- og veitingahúsarekstur |
3,5
|
6,5
|
Samgöngur og flutningar |
7,5
|
4,4
|
Fjármálaþjónusta |
4,1
|
1,3
|
Fasteigna- og viðskiptaþjónusta |
8,4
|
18,2
|
Opinber stjórnsýsla |
6,9
|
2,4
|
Fræðslustarfsemi |
7,0
|
7,0
|
Heilbrigðis- og félagsþjónusta |
15,4
|
20,0
|
Önnur þjónusta |
6,2
|
6,6
|
Alls |
100
|
100
|
Fjölmennasta atvinnugreinin (þegar atvinnulífinu er skipt upp í 27 atvinnugreinar) er þjónusta við atvinnurekstur en innan hennar eru fyrirtæki eins og bókhalds- og auglýsingastofur, arkitekta-og verkfræðistofur og þess háttar þjónustufyrirtæki. Í henni störfuðu 530 Íslendingar um síðastliðin áramót. Þetta eru 18% af hópnum, meira en tvöfalt hærra hlutfall en sama atvinnugrein er hjá Íslendingum á heimavelli.
Næst fjölmennust er félagsþjónusta. Þar störfuðu 427. Í fjórum atvinnugreinum til viðbótar störfuðu yfir 200. Þær eru byggingarstarfsemi (243), menntastofnanir (223), heilbrigðisstofnanir (212) og hótel og veitingastaðir (208). Í þessari síðasttöldu má ætla að fleiri Íslendingar starfi á sumrin en á veturna. Litlu færri (194) starfa í smásöluverslun.
Einungis 19 Íslendingar stunda sjóinn í Danaveldi meðan 83 vinna í öllum greinum matvæla- og drykkjarvöruiðnaðarins. Má reikna með því að töluverður hluti þeirra starfi við fiskvinnslu. Það vekur svo ef til vill athygli að 40 íslenskir ríkisborgarar starfa í fjármála- og tryggingastarfsemi, þrátt fyrir mikil umsvif Íslendinga á þeim vettvangi meðan 51 starfar við leigu- og eignamiðlun þar sem þeir hafa einnig haslað sér völl. Við samgöngur starfa 114.
Þessar tölur sýna að meðal Íslendinga sem starfa í Danmörku er að finna mikinn mannauð. Það skiptir töluverðu hvort hér verða skilyrði til þess að vaxandi hluti þessa hóps muni flytjast til baka á næstu árum.