Hoppa yfir valmynd
6. júní 2007 Matvælaráðuneytið

Forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar ráðinn

Iðnaðarráðuneyti

Nr. 2/2007

Fréttatilkynning

Forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar ráðinn

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hefur ákveðið að ráða dr. Þorstein Inga Sigfússon prófessor sem forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Hún verður til við sameiningu Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins 1. ágúst næstkomandi. Ráðherra sagði við setningu Rannsóknaþings í morgun að hann sæi fyrir sér að framtíðaraðsetur Nýsköpunarmiðstöðvar yrði í Vatnsmýrinni í Reykjavík, en nýju stofnuninni er ætlað að starfa í nánu samstarfi við háskóla og atvinnulíf um allt land.

Þorsteinn Ingi Sigfússon er 53 ára; fæddur í Vestmannaeyjum 4. júní 1954. Hann lauk doktorsprófi í eðlisfræði frá Cambridge háskóla árið 1983 og hefur áratuga reynslu af tæknirannsóknum og nýsköpunarstörfum. Hann hefur unnið með nemendum sínum að hagnýtingu háskólarannsókna, sem m.a. hefur leitt til stofnunar 7 sprotafyrirtækja og Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands.

Þekking Þorsteins á tæknirannsóknum og nýsköpun hefur nýst vel á innlendum og alþjóðlegum vettvangi, m.a. í störfum fyrir iðnaðarráðuneyti en fyrir þess hönd hefur hann verið framkvæmdastjóri alþjóðlegrar nefndar um málefni vetnissamfélagsins. Þorsteinn Ingi hefur verið formaður stjórnar Rannsóknaráðs Íslands, stjórnarformaður Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands og setið í stjórnum nýsköpunarfyrirtækja.

Fyrir fjölbreytt störf sín hefur Þorsteinn Ingi hlotið fjölda viðurkenninga: Hann hlaut m.a. viðurkenningu Vísinda- og Nýsköpunarráðuneytis Rússlands í janúar 2006 og tekur laugardaginn 9. júní næstkomandi á móti alþjóðlegum orkuverðlaunum ? Global Energy International Prize ? í St. Pétursborg.

Þorsteinn mun koma til starfa í næstu viku og vinna að undirbúningi og stefnumótun fyrir hina nýju stofnun ásamt starfsmönnum Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins o.fl.

Alls bárust 36 umsóknir um starfið.

Reykjavík, 6. júní 2007.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta