Hoppa yfir valmynd
8. júní 2007 Dómsmálaráðuneytið

Vel búin björgunarþyrla til landsins

Sigurður Heiðar Wiium yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar og Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra spjalla saman við TF-GNÁ
Sigurður Heiðar Wiium yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar og Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra spjalla saman við TF-GNÁ.

Vel búin björgunarþyrla hefur nú bæst í flota Landhelgisgæslu Íslands í stað annarrar leiguþyrlu sem var skilað. Þyrlan, sem er tveggja hreyfla af gerðinni Aerospatiale Super Puma AS-332L1, hefur fengið einkennisstafina TF-GNA og er leigð frá fyrirtækinu Norsk Helikopter í Stavanger.

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra flutti ávarp í móttökuathöfn sem haldin var í flugskýli landhelgisgæslunnar í gær og fór m.a. yfir þær miklu breytingar sem orðið hafa á starfsemi hennar á síðustu mánuðum. Ráðherra minnti á að nýverið hefði verið gengið frá kaupum á nýrri flugvél sem kæmi til landsins sumarið 2009 og í bígerð væri að stofna ríkisfyrirtæki um flugrekstur landhelgisgæslunnar. „Með komu þessarar vel búnu björgunarþyrlu er enn einum áfanganum náð við að styrkja þyrlukost Landhelgisgæslu Íslands, en hann byggist að nokkru upp á vel búnum leiguþyrlum þar til nýjar þyrlur verða keyptar. Unnið er að undirbúningi þeirra kaupa í samvinnu við norsk stjórnvöld. Verður fundað um málið næstu daga og stefni ég að því að ræða málið við norska dómsmálaráðherrann í næstu viku og Norðmenn og Íslendingar munu sameiginlega hitta þyrluframleiðendur á flugsýningu í París eftir aðra helgi.“

Geirþrúður Alfreðsdóttir flugrekstrarstjóri kynnti þyrluna og eiginleika hennar. Gná er sömu tegundar og björgunarþyrlan Líf. Gná er frá árinu 2002 og því fimm árum yngri en Líf og tekur búnaður hennar mið af því, ekki síst flugstjórnarbúnaðurinn. Þyrlan var áður notuð sem sjúkra- og björgunarþyrla á olíuborpöllum í Norðursjó. Loftför landhelgisgæslunnar hafa jafnan verið nefnd eftir persónum í norrænni goðafræði. Gná var ein af þjónustumeyjum Friggjar Fjörgynsdóttur, höfuðgyðju í norrænni goðafræði. Hún átti hestinn Hófvarpni sem rennur bæði loft og lög - og því þótti við hæfi að þyrlan fengi þetta nafn.

Sjá einnig vefsíðu Landhelgisgæslu Íslands, www.lhg.is



Sigurður Heiðar Wiium yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar og Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra spjalla saman við TF-GNÁ
Sigurður Heiðar Wiium yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar og Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra spjalla saman við TF-GNÁ.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum