Hoppa yfir valmynd
13. júní 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félagsmálaráðherra ávarpar Alþjóðavinnumálaþingið

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra ávarpar þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra ávarpar þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

Þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), sem er elsta sérstofnun Sameinuðu þjóðanna, stofnuð árið 1919, var sett í Þjóðabandalagshöllinni í Genf 30. maí síðastliðinn. Gert er ráð fyrir að þinginu ljúki næstkomandi föstudag 15. júní. Aðildarríkjum ILO er skylt að senda til þingsins sendinefndir sem eru skipaðar fulltrúum ríkisstjórna, samtaka atvinnurekenda og samtaka launafólks. Þingið sækja 4.657 fulltrúar að þessu sinni en það er hið 96. í röðinni.

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra ávarpaði þingið í dag. Í ávarpi sínu gerði ráðherra meðal annars grein fyrir áætlun ríkisstjórnarinnar í því skyni að eyða launamun kvenna og karla í þjónustu hins opinbera.

Ráðherra gerði einnig að umtalsefni virkan stuðning sendinefndar Íslands á þinginu við breytingar á drögum að alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði fiskimanna sem er eitt helsta málefni þingsins. Samþykkt um þetta efni náði ekki fram að ganga fyrir tveimur árum. Nú hefur hins vegar tekist víðtæk samstaða á þinginu um tillögu að samþykkt sem gert er ráð fyrir að verði afgreidd á morgun með miklum meirihluta atkvæða fulltrúa.

Önnur málefni þingsins lúta að mótun stefnu fyrir ILO varðandi liðsinni við aðildarríkin til að takast á við neikvæð áhrif alþjóðavæðingar efnahagslífsins á félags- og vinnumál í heiminum. Þingið fjallar einnig um sjálfbær fyrirtæki.

Fyrir þinginu liggur tillaga um starfs- og fjárhagsáætlun ILO til næstu tveggja ára. Fjallað var um áætlunina í einni af nefndum þingsins. Formaður hennar var kosinn Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu. Aðrir í sendinefnd Íslands á þinginu voru Kristinn F. Árnason sendiherra, Ragnar G. Kristjánsson sendifulltrúi, Þorbjörn Jónsson sendifulltrúi og Ingólfur Friðriksson starfsnemi, allir frá fastanefnd Íslands í Genf, Sverrir Konráðsson, sérfræðingur hjá Siglingastofnun, frá samgönguráðuneyti, Magnús Norðdahl og Sævar Gunnarsson, forseti Sjómannasambands Íslands, frá Alþýðusambandi Íslands, og Hrafnhildur Stefánsdóttir og Jón H. Magnússon frá Samtökum atvinnulífsins.


 Félagsmálaráðherra ásamt fulltrúum úr íslensku sendinefndinni á 96. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar  Frá setningu 96. þings Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf    
       
       

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta