Ekki mikil áhrif á ferðaþjónustu
Þriðjungur þeirra sem telja líklegt að þeir muni ferðast til Íslands næstu fimm árin segir að hvalveiðar muni minnka líkurnar á að þeir heimsæki landið. Tæp 10% segja að veiðar myndu auka líkur á Íslandsferð.
Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar könnunar sem Ferðamálastofa lét gera fyrir samgönguráðuneytið á áhrifum hvalveiða í atvinnuskyni á ímynd Íslands og íslenska ferðaþjónustu. Könnunin fór fram í Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkunum og er byggð á rúmlega fimm þúsund svörum frá þessum löndum.
Samhliða þessu voru könnuð viðhorf söluaðila íslenskrar ferðaþjónustu á erlendum mörkuðum og telja um 60% þeirra að hvalveiðar Íslendinga minnki líkur á því að viðskiptavinir þeirra heimsæki Ísland.
Meðal annarra niðurstaðna könnunarinnar er að hvalveiðar í atvinnuskyni hafi á heildina litið einhver neikvæð áhrif á viðhorf almennings til Íslands. Einnig minnki þær líkurnar á því að sá hluti svarenda sem telur mjög líklegt eða frekar líklegt að hann ferðist til Íslands á næstu fimm árum láti verða af því.
Í könnuninni mælist almenn ímynd Íslands jákvæð og þegar spurt er hvað komi helst upp í hugann þegar Ísland er nefnt nefna flestir hveri, hesta, Reykjavík og Björk.
Draga má þá ályktun af könnuninni að hvalveiðar Íslendinga í atvinnuskyni séu ólíklegar til að hafa mikil áhrif á íslenska ferðaþjónustu í bráð. Byggist hún meðal annars á því að markhópurinn er ekki vel upplýstur um þá staðreynd að Íslendingar stunda hvalveiðar í atvinnuskyni og hins vegar því að þótt viðhorf til hvalveiða séu almennt neikvæð virðast þau hafa lítil tengsl við ímynd Íslands sem áfangastaðar.
Hins vegar má telja líklegt að boðskapur hvalfriðunarsinna fæli hluta markhóps íslenskrar ferðaþjónustu frá Íslandsferðum haldi friðunarsinnar fram málstað sínum með þeim afleiðingum að vitund markhóps íslenskrar ferðaþjónustu um hvalveiðar Íslendinga aukist.
Þeir sem óska eftir að fá könnunina sjálfa geta sent tölvupóst á netfangið [email protected].