Hoppa yfir valmynd
18. júní 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Búferlaflutningar Pólverja

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 14. júní 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á undanförnum tveimur áratugum hafa um 8.300 Pólverjar flutt til landsins en 1.750 farið héðan.

Mismunurinn er 6.561. Þess má geta að frá árinu 1991 hafa 858 pólskir ríkisborgarar fengið íslenskt ríkisfang og teljast því ekki með. Af þeim 5.996 pólsku ríkisborgurum sem búsettir voru hér á landi um síðastliðin áramót voru rúmlega 1.600 konur, eða 27% hópsins meðan karlarnir voru rúmlega 4 þúsund. Um 93% af hópnum eru á starfsaldri (16-74 ára) en það hlutfall er 72% hjá öllum íbúum.

Í ljósi svo mikilla flutninga til jafn fámenns lands og Íslands er forvitnilegt að kanna umfang búferlaflutninga frá Póllandi og hvert þeir sem þaðan hafa flutt á undanförnum árum hafa farið. Samkvæmt upplýsingum pólsku hagstofunnar hafa um það bil tuttugu þúsund manns flust burt á hverju ári undanfarin ár en milli 7 og 9 þúsund flutt til landsins. Þessir flutningar hafa ekki aukist frá því Pólland gekk í ESB.

Ef skoðaðar eru hagtölur nokkurra nágrannalanda sést að hinar pólsku hagtölur fást varla staðist: það flytja miklu fleiri Pólverjar úr landi en opinberar tölur gefa til kynna. Í skýrslu sem gefin hefur verið út af breska innanríkisráðuneytinu kemur fram að á tímabilinu frá maí 2004 til júní 2006 fengu samtals 265.000 Pólverjar heimild til að starfa í Stóra-Bretlandi en það er 62% af öllum atvinnuleyfum til fólks frá hinum nýju aðildarríkjum ESB.

Flestir Pólverjanna vinna í atvinnugrein sem innheldur starfsmannaleigur en það þýðir að starfið getur verið í næstum því hvaða atvinnugrein sem er. Næstflestir eru í hótelog veitingaþjónustu, þar næst landbúnaði, svo framleiðsluiðnaði og matvælaiðnaði. Í upplýsingum frá írsku hagstofunni kemur fram að frá apríl 2005 til jafnlengdar 2006 fluttu 22.900 Pólverjar til Írlands, en það er einn af hverjum fjórum aðfluttum til landsins. Árið 2006 fluttu 7.400 Pólverjar til Noregs. Árið 2005 fluttu tæplega 2.000 þeirra til Danmerkur en rúmlega 600 fluttu til baka. Það er óvenjulegt því straumurinn er oftast næ einungis í aðra áttina. Til Svíþjóðar fluttust rúmlega 6.000 Pólverjar í fyrra og tala þeirra hafði tvöfaldast frá árinu áður.

Við inngönguna í ESB fengu Pólverjar aðgang að vaxandi vinnumörkuðum í Stóra-Bretlandi og Írlandi og einnig heimiluðu Svíar frjálsa för en þar hafa hins vegar verið miklar þrengingar á vinnumarkaði. Ísland og Noregur hafa einnig búið við vaxandi eftirspurn eftir vinnuafli og þeir hafa nú einnig opnað vinnumarkaði sína. Þetta hafa margir Pólverjar notfært sér og bætt eigin afkomu um leið og þeir hafa tekið að sér verðmæt verkefni í þeim löndum sem þeir hafa flust til. Brottflutningurinn hefur hins vegar án efa verið blóðtaka fyrir þær 38 milljónir íbúa sem byggja Pólland. Íbúum landsins hefur raunar farið fækkandi frá 1996 samkvæmt opinberum tölum.

Það er mat breska innanríkisráðuneytisins að aðflutningurinn hafi haft mjög jákvæð áhrif á breskt efnahagslíf án þess að gera miklar kröfur til velferðarþjónustu. Það fer svo væntanlega eftir viðhorfi hinna aðkomnu til nýju búsetulandanna, móttökunnar og efnahagsframvindunni hvort þeir ílendast í hinum nýju heimkynnum eða flytja aftur heim.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta