Endurskoðuð þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins 2007
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 10/2007
Fjármálaráðuneytið hefur birt endurskoðaða þjóðhagsspá fyrir árin 2007 til 2009 í skýrslunni Þjóðarbúskapurinn - sumarskýrsla 2007. Fjallað er um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála 2007-2009 á grundvelli endurskoðaðrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins. Þá eru breytingar frá aprílspá ráðuneytisins útskýrðar. Helstu niðurstöður spárinnar eru þessar:
- Neysla og fjárfesting náðu nýjum hæðum með auknum viðskiptahalla árið 2006, þegar áætlað er að hagvöxtur hafi verið 2,6%.
- Hagkerfið er tekið að þróast í átt að jafnvægi. Árið 2007 er gert ráð fyrir miklum samdrætti í fjárfestingu við lok núverandi stóriðjuframkvæmda og nokkrum samdrætti einkaneyslu. Þrátt fyrir stóraukinn útflutning áls er spáð að landsframleiðslan dragist saman um 0,1% í ár.
- Spáð er að áframhaldandi bata í utanríkisviðskiptum og samdráttur í þjóðarútgjöldum skili 2,0% hagvexti árið 2008 og að þjóðarútgjöld hætti að dragast saman árið 2009 þegar hagvöxtur verði 2,1%.
- Aðhald í efnahagsstjórn hefur aukist mikið undanfarin ár. Afkoma opinberra fjármála batnaði mikið í uppsveiflunni og því er spáð að hún verði áfram góð í ár. Raunstýrivextir hafa hækkað umtalsvert og viðbúið að áhrif peningastefnunnar fari vaxandi. Skýr merki eru komin fram um að ójafnvægi í hagkerfinu sé að minnka.
- Áætlað er að viðskiptahallinn hafi numið 27,4% af landsframleiðslu árið 2006 m.a. vegna aukins halla á þáttatekjujöfnuði. Spáð er að viðskiptahallinn dragist hratt saman í ár og verði 16,0% af landsframleiðslu vegna viðsnúnings í vöruviðskiptum. Árið 2008 er reiknað með að hallinn verði kominn í 10,2% af landsframleiðslu og 8% árið 2009.
- Verðbólgan hefur minnkað hratt í ár eftir að draga tók úr áhrifum tímabundinnar lækkunar á gengi krónunnar í fyrra. Aðgerðir stjórnvalda til að lækka matvælaverð 1. mars síðastliðinn höfðu einnig áhrif til lækkunar. Á móti hefur fasteignaverð hækkað nokkuð umfram aðra liði og haft áhrif til að halda verðbólgu hærri en ella. Spáð er að verðbólgan verði að meðaltali 3,7% í ár, komist á 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands síðar á árinu og verði nálægt markmiði árin 2008 og 2009.
- Atvinnuleysi, sem áætlað er að hafi numið 1,3% af vinnuafli árið 2006, er spáð að aukast í 1,6% í ár þegar hægir á í efnahagslífinu. Vegna samdráttar í innlendri eftirspurn er spáð að atvinnuleysi verði 3,9% af vinnuafli á næsta ári og 4,5% árið 2009.
- Hratt dró úr mældri framleiðsluspennu í fyrra og er áætlað að slaki myndist í hagkerfinu í ár, en að hann verði horfinn árið 2009.
- Helstu óvissuþættir í þjóðhagsspánni varða frekari stóriðjuframkvæmdir, breytingu á aflamarksreglu fyrir næsta fiskveiðiár, gengi krónunnar, áhrif alþjóðavæðingar á innlenda eftirspurn og endurnýjun kjarasamninga.
Nánari upplýsingar um spána veitir Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins; sími 545 9178 eða 862 0017.
Fjármálaráðuneytinu, 19. júní 2007