Hoppa yfir valmynd
20. júní 2007 Matvælaráðuneytið

Aukaaðalfundur NEAFC í London 13. - 14. júní 2007


Samkomulag um 15.500 tonna leyfðan heildarafla á úthafskarfa í síldarsmugunni fyrir árið 2007

 

Á aukaaðalfundi NEAFC sem fram fór í London dagana 13. – 14. júní sl. náðist samkomulag um 15.500 tonna úthafskarfaafla í síldarsmugunni. Að mati Alþjóða hafrannsóknaráðsins, ICES, er stofninn talinn standa illa og hefur ráðið lagt til að engar beinar veiðar séu stundaðar úr stofninum en á síðasta ári voru veidd um 27.000 tonn af úthafskarfa á svæðinu og hafa veiðarnar úr stofninum farið vaxandi á síðustu árum bæði sem meðafli sem og í samfara auknum beinum veiðum. Á fundinum lögðu Norðmenn fram tillögu um að engar veiðar yrðu heimilar á þessu ári og meðafli við aðrar veiðar yrði ekki meiri en 1%. Á fundinum studdu Íslendingar tillögu Norðmanna þ.e. um veiðibann á árinu 2007 eða þangað til frekari niðurstöður liggja fyrir um mælingar á úthafskarfa á svæðinu sem er að vænta í haust í kjölfar leiðangra Norsku hafrannsóknastofnunarinnar sem fyrirhugaðir eru í ágúst og september. Fulltrúar Færeyinga, Rússlands og Evrópusambandsins gátu ekki stutt tillögu Norðmanna um engar veiðar og varð niðurstaðan sú að leyfa veiðar á 15.500 tonnum af úthafskarfa í síldarsmugunni á tímabilinu 1. september til 15. nóvember 2007 og meðafli á karfa fari ekki yfir 5% við aðrar veiðar. Veiðiheimildum er ekki skipt á milli aðila og verða veiðarnar stöðvaðar þegar heildaraflamarkinu, 15.500 tonnum, verður náð en skrifstofa NEAFC mun halda utan um veiðiupplýsingar. Öllum þeim skipum sem heimildir hafa haft til veiða á úthafskarfa á NEAFC svæði verður heimilt að stunda veiðarnar.

 

Á fundi NEAFC voru önnur mál jafnframt á dagskrá og má helst nefna niðurstöðu árangursmat á starfi NEAFC sem unnið hefur verið að á síðustu misserum. Á alþjóðlegum vettvangi hefur komið fram krafa um að svæðisbundnar fiskveiðistjórnunarstofnanir láti framkvæma slíkt mat og er NEAFC fyrst stofnanna á þessu sviði til að gera það og hefur aðferðafræði NEAFC hlotið töluverðrar athygli. Niðurstöður matsins voru til umfjöllunar og voru fjölmargar tillögur, sem taka til ábendinga og niðurstaðna matsins, samþykktar en þær miða allar að því að styrkja enn frekar starf NEAFC til framtíðar.

Hin mjög svo ánægjulegi árangur í baráttunni gegn ólöglegum veiðum var jafnframt til umræðu. Nú hefur það verið staðfest að sex af þeim skipum sem stundað hafa ólöglegar karfaveiðar á Reykjaneshrygg undanfarin ár verða rifin á næstunni. Íslensk stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á aðgerðir gegn svokölluðum sjóræningjaveiðum undanfarin misseri, m.a. í samstarfi við hin aðildarríki NEAFC. Alls eru 20 skip á lista NEAFC yfir skip sem staðfest er að hafi stundað eða stutt við sjóræningjaveiðar. Auk umræddra sex skipa hafa níu af skipunum verið kyrrsett í höfnum NEAFC-ríkja og fimm eru í verkefnum fjarri Norður-Atlantshafi.

Formaður íslensku sendinefndarinnar var Steinar Ingi Matthíasson sérfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu. Auk fulltrúa sjávarútvegsráðuneytisins voru í sendinefnd Íslands á fundinum fulltrúar, Hafrannsóknastofnunarinnar, Fiskistofu og hagsmunaaðila í sjávarútvegi.

 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu, 20. júní 2007.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta