Hoppa yfir valmynd
21. júní 2007 Utanríkisráðuneytið

Fundur utanríkisráðherra með Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jonas Gahr Støre utanríkisráðherra Noregs
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jonas Gahr Støre utanríkisráðherra Noregs

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 69/2007

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, átti í gær fund með Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, en utanríkisráðherra er nú í opinberri heimsókn í Noregi í boði norska starfsbróður síns. Á fundinum ræddu ráðherrarnir um samstarf Íslands og Noregs á sviði öryggis- og varnarmála, málefni Norðurslóða og vestnorrænt samstarf.

Ráðherrarnir fjölluðu einnig um þróun mála innan Evrópusambandsins og hvernig Ísland og Noregur geta best staðið vörð um hagsmuni sína gagnvart samrunaþróun Evrópu. Voru ráðherrarnir sammála um að kanna möguleika á nánara samstarfi þjóðanna tveggja á þessu sviði.

Ráðherrarnir ræddu ennfremur um þróun mála í Mið-Austurlöndum og lýstu yfir áhyggjum sínum af atburðum síðustu vikna. Einnig var rætt um málefni norsk-íslensku eftirlitssveitanna á Srí Lanka og voru ráðherrarnir sammála um að brýnt væri að fylgjast grannt með þróun ástandsins þar í landi.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Anna-Grete Ström-Erichsen, varnarmálaráðherra NoregsÍ hádeginu í gær átti utanríkisráðherra einnig fund með varnarmálaráðherra Noregs, Anna-Grete Ström-Erichsen, þar sem rætt var um hvernig styrkja mætti samstarf þjóðanna á sviði varnar- og öryggismála á grundvelli samkomulags Íslands og Noregs um það efni frá apríl sl. Ennfremur ræddi utanríkisráðherra um norrænt varnarsamstarf við norska varnarmálaráðherrann.

Þá hitti utanríkisráðherra í gær fulltrúa úr utanríkis- og EES-nefndum norska Stórþingsins þar sem fjallað var um aðkomu þessara þingnefnda að ákvörðunum um utanríkis- og Evrópumál í Noregi.

Í dag átti utanríkisráðherra fund með forseta Stórþingsins, Thorbjørn Jagland, þar sem rætt var um þróun mála í Evrópu og tengsl Íslands og Noregs við Evrópusambandið, samstarf Íslands og Noregs á sviði varnar- og öryggismála og ástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins í ljósi nýjustu atburða þar. Í dag mun opinber heimsókn utanríkisráðherra til Noregs halda áfram þegar utanríkisráðherra og eiginmaður hennar, Hjörleifur Sveinbjörnsson, munu sækja Tromsö heim í boði Svein Ludvigsen, fylkishöfðingja Troms-fylkis.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta