Endurskoðuð þjóðhagsspá fyrir árin 2007 - 2009
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 21. júní 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Fyrr í þessari viku kom út endurskoðuð þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins þar sem fjallað er um framvindu efnahagslífsins til ársins 2009.
Endurskoðunin hefur leitt til nokkurra breytinga frá aprílspá ráðuneytisins. Helst ber að nefna að nú er gert ráð fyrir meiri samdrætti þjóðarútgjalda eða 7,2% að raungildi, en aukningin skýrist af 1,3% samdrætti í einkaneyslu. Versnandi horfur um framleiðslu sjávarafurða leiða til þess að áætlað er að aflaverðmæti dragist saman um rúm 4% frá fyrri spá og dragist lítið eitt saman á árinu 2007. Hér er miðað við að aflareglu sé fylgt og að útgefinn kvóti í þorski verði 178 þúsund tonn. Áætlað er að hagvöxtur verði um -0,1% í ár sem er 1% minni hagvöxtur en í aprílspá.
Spáð er að hagkerfið haldi áfram að þróast í átt að jafnvægi á komandi misserum. Spenna í efnahagslífinu virðist hafa farið hratt minnkandi frá fyrra ári sem er í samræmi við hagmælingar sem sýna snarpan samdrátt þjóðarútgjalda á fyrsta ársfjóðungi 2007. Gert er ráð fyrir að framleiðsluslaki myndist í ár en hverfi smám saman á spátímabilinu. Vegna áframhaldandi bata í utanríkisviðskiptum og þrátt fyrir áframhaldandi samdrátt þjóðarútgjalda er spáð að hagvöxtur verði 2,0% árið 2008, en að hann verði 2,1% árið 2009 þegar spáð er að þjóðarútgjöld hætti að dragast saman.
Spenna á vinnumarkaði hefur sett þrýsting á hækkun kaupgjalds og verðlags og gerð nýrra kjarasamninga er framundan. Af þessum sökum er reiknað með að stýrivextir haldist háir um sinn og að verðbólga verði að meðaltali 3,7% í ár en nálægt 2,5% verðbólgumarkmiði árin 2008 og 2009. Áætlað er að atvinnuleysi aukist þegar hægja tekur á í efnahagslífinu og verði að meðaltali 1,6% af vinnuafli í ár. Spáð er 3,9% atvinnuleysi á næsta ári og 4,5% árið 2009. Rétt er að árétta óvissu við mat á atvinnuleysishorfum sem meðal annars ráðast nokkuð af þróun atvinnuþátttöku erlends vinnuafls hér á landi.
Yfirlit þjóðhagsspár 2006 - 2009
Brb.
|
Spá
|
|||
---|---|---|---|---|
Magnbreytingar frá fyrra ári, % |
2006
|
2007
|
2008
|
2009
|
Einkaneysla |
4,6
|
-1,3
|
-1,2
|
0,5
|
Samneysla |
2,9
|
2,5
|
2,1
|
2,4
|
Fjármunamyndun |
13,0
|
-23,5
|
-16,5
|
-3,3
|
Þjóðarútgjöld alls |
7,4
|
-7,2
|
-4,0
|
0,2
|
Útflutningur vöru og þjónustu |
-5,6
|
9,9
|
10,9
|
3,8
|
Innflutningur vöru og þjónustu |
8,8
|
-11,8
|
-5,3
|
-0,9
|
Verg landsframleiðsla |
2,6
|
-0,1
|
2,0
|
2,1
|
Viðskiptajöfnuður, % af VLF |
-27,4
|
-16,0
|
-10,2
|
-8,0
|
Atvinnuleysi, % af vinnuafli |
1,3
|
1,6
|
3,9
|
4,5
|
Verðbólga (milli ársmeðaltala VNV) |
6,8
|
3,7
|
2,9
|
2,6
|
Í útgefinni þjóðhagsspá eru sýndar niðurstöður útreikninga um frávik frá meginspá ef verður af framkvæmdum við Helguvík og ef farið verður að veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar.
Verði farið að öllu leyti eftir ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar um hámarksafla má gera ráð fyrir að hagvöxtur verði 0,3% og 0,5% minni í ár og á því næsta. Áhrif á vinnumarkað yrðu takmörkuð í ár en gera má ráð fyrir að atvinnuleysi verði að jafnaði 0,5% meira á næstu árum. Draga myndi lítillega úr verðbólguþrýstingi og viðskiptajöfnuður við útlönd myndi versna um rúmt 0,5% af landsframleiðslu þegar áhrif af aflasamdrætti kæmu fram á heilu ári.
Verði framhald á stóriðjuframkvæmdum með byggingu nýs álvers í Helguvík og tengdum fjárfestingum í orkuframleiðslu, að mestu leyti í jarðvarmaorku yrði hagvöxtur 0,2% og 0,6% meiri árin 2008 og 2009. Áhrif framkvæmdanna á verðlag og viðskiptajöfnuð yrðu lítilega neikvæð á spátímabilinu en gera má ráð fyrir að atvinnuleysi minnkaði um rúmlega 0,5% þegar framkvæmdir væru komnar nokkuð af stað árið 2009.