Félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga haldi áfram nánu samstarfi
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra heimsótti Samband íslenskra sveitarfélaga að Borgartúni 30 í Reykjavík í dag. Fulltrúar Sambandsins lýstu yfir ánægju með áherslur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, meðal annars með að settur verði á laggirnar samráðsvettvangur milli ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga um aðgerðir og langtímamarkmið á sviði efnahags-, atvinnu- og félagsmála og að tekju- og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð með það að markmiði að efla sveitarstjórnarstigið.
Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Sambandsins, sagði að Sambandið hefði haft náin og góð samskipti við félagsmálaráðuneytið og vonaði að svo yrði áfram þótt sveitarstjórnarmál flyttust í samgönguráðuneytið. Undir þau orð hans tóku Halldór Halldórsson, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Árni Þór Sigurðsson varaformaður.
Auk þeirra atriða sem um getur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar lagði Jóhanna Sigurðardóttir áherslu á samráð og samstarf við sveitarfélögin varðandi endurskoðun fyrirkomulags um félagslegt húsnæði og húsaleigubætur. Enn fremur minnti félagsmálaráðherra á mikilvægi þess að sveitarstjórnir sem og ríki hugi ávallt að jafnrétti kynjanna í öllu starfi sínu og tækju saman höndum um að eyða kynbundnum launamun. Miklu skipti að ríki og sveitarfélög ynnu vel saman að endurmati á kjörum kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta, og síðast en ekki síst framkvæmd nýrrar aðgerðaáætlunar til að styrkja stöðu barna og ungmenna.