Hoppa yfir valmynd
22. júní 2007 Innviðaráðuneytið

Svanhildur Konráðsdóttir skipuð formaður ferðamálaráðs

Kristján L. Möller samgönguráðherra hefur skipað Svanhildi Konráðsdóttur formann ferðamálaráðs. Ráðherra hefur einnig skipað Einar Karl Haraldsson, aðstoðarmann iðnaðarráðherra, sem varaformann ferðamálaráðs.

Svanhildur Konráðsdóttir er sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar og hefur víðtæka þekkingu á íslenskri ferðaþjónustu. Hún situr meðal annars í stjórn Austurhafnar er stendur fyrir byggingu tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvar í Reykjavík og í stjórn Ráðstefnuskrifstofu Íslands.

Lögum samkvæmt eiga tíu fulltrúar sæti í ferðamálaráði og eru formaður og varaformaður skipaðir af ráðherra án tilnefningar en aðra fulltrúa skipar ráðherra eftir tilnefningu eftirtalinna: Samtaka ferðaþjónustunnar sem tilnefna þrjá fulltrúa, Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem tilnefnir tvo fulltrúa, Ferðamálasamtaka Íslands sem tilnefna tvo fulltrúa og Útflutningsráðs Íslands, sem tilnefndir einn. Skipunartími ferðamálaráðs er fjögur ár en skipunartími formanns og varaformanns takmarkast við embættistíma ráðherra. Núverandi ráð situr til ársloka 2009.


Hlutverk ferðamálaráðs er meðal annars að leggja fyrir ráðherra tillögur um markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustunnar, vera ráðgefandi fyrir ráðherra um áætlanir í ferðamálum og veita umsagnir um breytingar á lögum og reglum er varða ferðamál.

Fráfarandi formaður og varaformaður ferðamálaráðs eru Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður og Dagný Jónsdóttir, fyrrverandi alþingismaður.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum