Fjölmenni á flughelgi á Akureyri
Flughelgi stendur nú yfir á Akureyrarflugvelli og sagði Kristján L. Möller samgönguráðherra í ávarpi við setningu hátíðarinnar að þar mætti sjá getu og hæfni íslenskra flugmanna og flugvéla þeirra.
Meðal dagskráratriða á flughelgi eru sýning í Flugsafninu á Akureyri og var Guðjón Jónsson, fyrrverandi yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar, sérstaklega heiðraður með sýningu úr starfi hans og Gæslunnar. Arngrímur Jóhannsson, formaður stjórnar safnsins, sagði starfsemi Landhelgisgæslunnar, flugmanna og annarra starfsmanna ekki alltaf fara hátt en það væri þýðingarmikið öllum landsmönnum.
Ráðgert var að opna safnið formlega um helgina en því hefur verið frestað þar til síðsumars. Svanbjörn Sigurðsson, forstöðumaður safnsins, sagði við upphaf flughelgar að ýmislegt hefði tafið endanlegan frágang safnsins og því hefði opnunarhátíð verið frestað. Engu að síður hefði húsið nýst til að fagna 70 ára flugafmæli Icelandair og forvera þess.
Kristján L. Möller sagði það bara tilhlökkunarefni að geta heimsótt safnið aftur og skoðað þá flugsögu sem þar væri að safnast saman. Kvaðst hann hafa verið upplýstur um að meðal ástæðna þess að ekki hefði tekist að ljúka húsinu fyrir þessa helgi væri að byggingarefni hefði ekki ratað beina leið norður heldur haft viðkomu á Selfossi og í Japan. Óskaði hann Guðjóni Jónssyni og Landhelgisgæslunni velfarnaðar en þyrluflugmenn sýndu listir á einni þyrlu Gæslunnar.
Meðal annarra dagskráratriða voru listflug og svifflug sem Ómar Ragnarsson lýsti, Þristurinn Páll Sveinsson sveif yfir gestum og gefinn var kostur á útsýnisflugi. Þá voru til sýnis fjölmargar vélar í húsnæði flugsafnsins og boðið uppá útsýnisflug. Það verður einnig í boði á morgun milli kl. 11 og 17 og kl. 15 til 16 verður listflug og svifflug.
Einnig sagði nokkur orð Joe Sutter, verkfræðingur frá bandarísku Boeing flugvélaverksmiðjunum, en hann leiddi teymi verkfræðinga sem hannaði B747 breiðþotuna. Er hann enn, hálfníræður, í starfi hjá verksmiðjunum, ferðast um og leggur lið sitt við framleiðslu á nýjustu útgáfum breiðþotunnar. Er þotan af mörgun enn talin eiga fullt erindi á markaðinn með ýmsum tækninýjungum sem teknar verða upp en grunnbyggingin stendur enn eftir áratuga framleiðslu.