Hoppa yfir valmynd
26. júní 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Íslenska ríkið gerir samning við Vörusjá ehf. um rekstur og þróun á rafrænu markaðstorgi fyrir ríkið

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 11/2007

Fréttatilkynning frá fjármálaráðuneyti, Ríkiskaupum og Vörusjá ehf. um samning íslenska ríkisins við Vörusjá ehf. um rekstur og þróun á rafrænu markaðstorgi.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og Júlíus S. Ólafsson, forstjóri Ríkiskaupa, hafa undirritað samning við Vörusjá ehf. um rekstur og þróun rafræns markaðstorgs fyrir stofnanir og fyrirtæki ríkisins. Hörður Helgason, stjórnarformaður Vörusjár ritaði undir samninginn fyrir hönd Vörusjár.

Vörusjá ehf. er nýstofnað félag um rekstur og umsjón rafræna markaðstorgsins sem ætlað er að leysa af hólmi eldra markaðstorg sem lauk starfsemi þann 15. maí sl. og hafði þá verði starfrækt frá júní 2002. Þau fyrirtæki sem standa að Vörusjá ehf. eru EC Software ehf., Spron, Árvakur hf. og Íslandspóstur hf.

Torgið keyrir á sérhæfðum verslunarlausnum frá EC Software sem þjónusta fjölda fyrirtækja, hérlendis og erlendis. Stefnt er að því að sem flestir birgjar verði með beinar tengingar við torgið sem þýðir að rafrænar pantanir skili sér beint í sölukerfi þeirra til afgreiðslu.

Stefnt er að því að geta hafið vinnu við tengingar birgja við torgið föstudaginn, 29. júní nk. og í framhaldinu munu þá til að byrja með, opinberir kaupendur geta keypt rammasamningsvörur um torgið. Í framhaldinu stendur síðan til að útvíkka vöruúrvalið hjá rammasamningsbirgjum auk þess sem aðrir birgjar og þjónustuaðilar munu smám saman geta nýtt sér þessa nýju leið til að koma sinni vöru og þjónustu á framfæri, þegar torgið kemst í almenna notkun.

Framundan er sameiginlegt kynningar- og fræðslustarf í umsjón Vörusjár og  Ríkiskaupa. Ætlunin er að sem flestir opinberir kaupendur geti nýtt sér torgið innan fárra vikna. Allar helstu leiðbeiningar um daglega notkun torgsins verða á rafrænu formi inni á torginu en sem áður segir munu sérfræðingar hjá EC Software aðstoða fyrirtæki og stofnanir við uppsetningu og tengingar ásamt því að verkefnastjóri frá Ríkiskaupum mun í byrjun aðstoða við gerð og frágang pantana og annað sem snýr að innkaupum um torgið.

Rammasamningar Ríkiskaupa ásamt öllum helstu upplýsingum um kjör og afslætti í samningunum munu verða aðgengileg á torginu. Torgið býður einnig upp á þann möguleika að birgjar geti birt öll viðeigandi  tilboð á vöru og þjónustu sérstaklega. 

Fjármálaráðuneytið

26. júní 2007

 

Undirskrift Vörusjá ehf.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta