Hoppa yfir valmynd
29. júní 2007 Dómsmálaráðuneytið

Ný lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald taka gildi 1. júlí 2007

Alþingi samþykkti að tillögu samgönguráðherra ný lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 17. mars sl. Lögin, sem taka gildi 1. júlí nk., leysa af hólmi lög um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, V. og VIII. kafla áfengislaga, nr. 75/1998, og lög nr. 120/1947, um heimild til að marka skemmtunum og samkomum tíma. Með lögunum færist yfirstjórn mála er varða veitinga- og gististaði frá samgönguráðuneytinu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Megintilgangur laganna er að einfalda leyfisveitingar til reksturs veitinga- og gististaða og draga úr þeim fjölda leyfa, gagna og umsagna sem umsækjendur þurftu áður að afla til að hefja slíkan rekstur. Þá er lagaumhverfi fyrir þessa starfsemi gert einfaldara.

Meðal helstu breytinga og nýmæla í lögunum má nefna að núverandi veitinga- og gistileyfi, áfengisveitingaleyfi og skemmtanaleyfi eru sameinuð í eitt leyfi sem kallast rekstrarleyfi og gildir almennt í fjögur ár. Leyfisveitingar verða í höndum sýslumanna að undanskildum sýslumanninum í Reykjavík en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefur út leyfi í umdæmi hans. Þá er gildissvið laganna víkkað út þannig að þau ná líka til sölu og veitingar áfengis.

Umsóknarferlið vegna leyfa er einfaldað og hægt verður að sækja um leyfi rafrænt auk þess sem gagnaöflun getur verið rafræn, þar sem því verður við komið. Starfsleyfi heilbrigðisnefnda er áfram ófrávíkjanlegt skilyrði rekstrarleyfis en gert er ráð fyrir að hægt verði að sækja um slíkt leyfi samhliða rekstrarleyfinu. Áfram er gert ráð fyrir að leita þurfi umsagna ákveðinna aðila og settar eru skýrari reglur er það varða og umsagnir gerðar bindandi.

Í lögunum er einnig fjallað um leyfi sem þarf í einstökum tilvikum. Er annars vegar um að ræða tækifærisleyfi fyrir einstökum atburðum og skemmtunum sem fram fara utan staða sem hafa rekstrarleyfi og hins vegar tímabundin áfengisveitingaleyfi vegna sölu og/eða afhendingar áfengis við einstök tækifæri í atvinnuskyni. Þá eru í lögunum skýrari viðurlög við brotum og er helsta nýmælið að lagt er til að lögreglu verði gert skylt að loka stöðum sem stunda starfsemi án rekstrarleyfis eða samrýmast ekki gildandi rekstrarleyfi. Tryggingar vegna áfengisleyfa falla brott og einnig skemmtanaleyfið í núverandi mynd.

Lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007.

Reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 585/2007

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta