Utanríkisráðherra átti sérstakan fund um flóttamannaneyð Íraks
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) var meðal fjölmargra ráðamanna sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hitti á einkafundi í kringum leiðtogafund Afríkusambandsins í Gana. Sérstakt tilefni fundarins var flóttamannavandi Íraka og versnandi aðstæður almennings í landinu. Guterres staðfestir að 2 milljónir manna séu nú án athvarfs og á flótta í Írak og aðrar 2 milljónir á flótta utan landamæranna í nágrannaríkjum. Þau Ingibjörg Sólrún ræddu ítarlega viðbrögð alþjóðasamfélagsins og ráðherrann fræddist um hvers konar aðgerðir Flóttamannastofnun SÞ telur æskilegastar til að bæta aðstæður fólkins sem í hlut á.