Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2007 Matvælaráðuneytið

Leyfilegur heildarafli fiskveiðiárið 2007 - 2008 og tillögur sjávarútvegsráðuneytisins vegna samdráttar í þorskafla

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti

Leyfilegur heildarafli fiskveiðiárið 2007 – 2008 og tillögur sjávarútvegsráðuneytisins vegna samdráttar í þorskafla

Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur í dag gefið út reglugerð um leyfilegan heildarafla á næsta fiskveiðiári, 2007-2008. Jafnframt eru kynntar tillögur sjávarútvegsráðuneytisins til aðgerða vegna verulegra breytinga á leyfilegum heildarafla í þorski milli ára.

Í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar verður þorskafli næsta fiskveiðiárs skorinn niður um 63 þús. tonn eða úr 193 þús. tonnum í 130 þús. tonn. Einnig hefur verið ákveðið að á fiskveiðiárinu 2008-2009 miðist leyfilegur þorskafli við 20% afla úr viðmiðunarstofni þó þannig að tekið verði tillit til sveiflujöfnunar samkvæmt aflareglu fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Leyfilegur heildarafli í þorski verði þó ekki undir 130 þús. tonnum á því fiskveiðiári.

 

Meginniðurstöður Hafrannsóknastofnunarinnar eru þær að stærð veiðistofnsins er nú nálægt sögulegu lágmarki og stærð hrygningarstofnsins aðeins helmingur þess sem talið er að gefi hámarksafrakstur. Nýliðun síðustu 6 árin hefur verið slök og meðalþyngd allra aldurshópa er í sögulegu lágmarki. Því telur stofnunin mikilvægt að veiðihlutfallið verði nú þegar lækkað og að aflamark á komandi árum miðist við 20% af viðmiðunarstofni í stað 25% eins og verið hefur. Vegna bágs ástands uppvaxandi árganga er lagt til að ekki verði að þessu sinni tekið tillit til aflamarks yfirstandandi fiskveiðiárs og að afli næsta fiskveiðiárs verði takmarkaður við 130 þús. tonn.

 

Á síðasta ári fól sjávarútvegsráðherra Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að skoða þjóðhagsleg áhrif mismunandi aflareglna og hefur niðurstaða stofnunarinnar einnig verið kynnt. Samkvæmt mati hennar á þjóðhagslegum áhrifum þess að þorskafli dragist saman um 65 þús. tonn, úr 195 þús. tonnum í 130 þús. tonn, mun aflaverðmæti þorsks dragast saman um 9,2 milljarða króna, útflutningsverðmæti um 16 milljarða og verg landsframleiðsla um 0,8%. Við þetta mat er miðað við óbreytt meðalverð þorskafurða, óbreytt verðmæti annarra sjávarafurða og ekki gert ráð fyrir gengisbreytingum. Þær forsendur hafa því engin áhrif á virði annarra sjávarafurða en þorsks.

 

Þá hefur sjávarútvegsráðherra falið Hafrannsóknastofnuninni að gera tillögur um hvernig efla megi rannsóknir og aðgerðir til uppbyggingar þorskstofninum. Tillögurnar lúta að eftirfarandi atriðum:

Stofnaður verði faghópur til að fara yfir gæði og eðli togararalls.

Skoðað verði hvort auka eigi verndun þorsks á hrygningartíma.

Rannsökuð verði breytt hegðun og útbreiðsla þorsks innan og utan lögsögu.

Fæðurannsóknir verði efldar.

Tryggður verði áreiðanleiki veiðiupplýsinga.

Loðnuveiðar hefjist ekki fyrr en 1. nóvember.

 

Ríkisstjórnin grípur til sérstakra aðgerða til að bregðast við yfirvofandi samdrætti í þorskafla og hvað sjávarútvegsráðuneytið snertir hefur sjávarútvegsráðherra ákveðið eftirfarandi:

 

Að setja á laggirnar starfshóp með það markmið að efla tengsl og upplýsingastreymi á milli allra sem starfa við rannsóknir á þorski og til að auka skilning á þáttum sem hafa áhrif á nýliðun stofnsins. Hlutverk starfshópsins verður einnig að benda á hvaða rannsóknir skortir á stofninum og að móta framtíðarrannsóknir til að efla þekkingu og auka skilning á þáttum sem hafa áhrif á nýliðun og viðkomu þorsks. Nefndin mun starfa undir forystu Guðrúnar Marteinsdóttur prófessors í fiskifræði við Háskóla Íslands en einnig munu sitja í hópnum fultrúar Hafrannsóknastofnunarinnar og Háskólans á Akureyri.

 

Samkeppnisdeild Verkefnasjóðs sjávarútvegsins verði efld til þess að auka fjölbreytni hafrannsókna og stuðla að auknu fjármagni til þeirra.

 

Endurskoðaðar verði reglur um framsal aflamarks og aflahlutdeildar og um forkaupsrétt á aflaheimildum.

 

Nefnd fulltrúa allra þingflokka verði falið að kanna hver reynslan af aflamarkskerfinu hefur verið, eins og kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

 

Skoðað verði hvernig unnt sé að láta skerðingu aflaheimilda vegna byggðakvóta, línuívilnunar og sérstakra bóta miðast við heildarþorskígildisfjölda einstakra skipa, þannig að skerðingin dreifist á fiskiskipaflotann miðað við heildarúthlutun aflaheimilda en bitni ekki að mestu á þeim útgerðum sem hafa hlutfallslega hæstar heimildir í þorski.

 

----------------------------------

 

Meðfylgjandi:

Reglugerð um leyfilegan heildarafla á fiskveiðiárinu 2007 - 2008

 

 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 6. júlí 2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum